Fara í efni

Vetrarferðir á landsbyggðinni í sókn

Vetur í Mývatnssveit
Vetur í Mývatnssveit

Mikil gróska hefur verið í ferðaþjónustu um land allt síðustu misserin og tekist að auka ferðaþjónustu utan hins hefðbundna háannatíma, þ.e. í júní, júlí og ágúst. Fleiri ferðamenn koma nú yfir veturinn en yfir sumarið. Ferðamálastofa vinnur nú í samvinnu við ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni og söluaðila á erlendum mörkuðum að þróa enn frekar ferðamöguleika á landsbyggðinni yfir veturinn.

Vetrarríki í Mývatnssveit.

Seinnihluta maímánaðar stóð skrifstofa Ferðamálastofu í Evrópu að fundum með erlendum ferðaheildsölum á heilsársmörkuðum Íslandsferða á svæðinu, þ.e. Þýskalandi, Hollandi og Frakklandi. Á fundina mættu ennfremur fulltrúar ferðamálasamtaka landsbyggðarinnar, sem fengu þar tækifæri til að hitta helstu aðila í sölu Íslandsferða á þessum mörkuðum, greina frá möguleikum sem hvert svæði hafa upp á að bjóða utan háannatíma og taka þátt í fjörugum umræðum við heimamenn að kynningunum loknum. Tilgangurinn var að þessir aðilar sem að öllu jöfnu hafa ekki mikinn samgang myndu í raun kynna hvor öðrum ?vöruna? og ?markaðinn?.  Einnig tók Icelandair þátt í verkefninu.

Tækifærin eru til staðar út á landi
Í framhaldi af þessu var svo boðað til vinnufundar 12. júní í Reykjavík þar sem fulltrúar svæðanna reifuðu það markverðasta af fundunum þremur með íslenskum þjónustu- og söluaðilum og fóru yfir hvernig halda má áfram að þróa vænlegar söluvörur landsbyggðarinnar fyrir Evrópumarkaði. Það var mál manna að fundirnir hefðu heppnast mjög vel. Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu segir aðspurður um tilgang þessara funda: ?Það eru frábær tækifæri úti á landi til að auka vetrarsölu til erlendra ferðamanna. Landsvæði þurfa að taka höndum saman og þróa vöru- og þjónustuframboð til ákveðinna markhópa á völdum erlendum mörkuðum. Við þurfum að kortleggja þessa möguleika og koma þeim áfram á framfæri?

Nú er lag
Sem fyrr segir var það skrifstofa Feðamálastofu í Evrópu sem stóð fyrir fundunum ytra og Davíð Jóhannsson forstöðumaður kvaðst mjög sáttur með árangurinn. ?Við stöndum í rauninni frammi fyrir tveimur áskorunum utan háannatíma. Annars vegar að koma landsbyggðinni betur inn á kortið og hinsvegar að auka strauminn frá þessum þremur mörkuðum um þennan tíma en þeir hafa ekki vaxið jafn hratt um þennan tíma og t.d. Bretland eða Norðurlöndin. Nú er lag. Ferðagleði fólks á þessum mörkuðum er að aukast, með breyttu mynstri þar sem fleiri og styttri ferðir eru farnar, flugtíðnin til Íslands er jafnt og þétt að aukast héðan og margt sem að landsbyggðin hefur upp á að bjóða á vekur athygli. Þar þurfa menn hins vegar að fókusera vel og vera tilbúnir að leggja út í ákveðin fórnarkostnað, því þetta er langur og grýttur vegur. Með þessum fundum hefur eitt þegar unnist: Gangan er hafin,? segir Davíð.

Mjög markvisst
Yngvi Ragnar Kristjánsson hefur unnið ötullega að þróun vetrarferða á Mývatnssvæðinu og er með 15 manns í vinnu allt árið við þjónustu ferðamanna. Að sögn hans eru mörg tækifæri í vetrarferðamennsku og lýsti hann yfir ánægju með þetta framtak Ferðamálastofu og fyrirkomulag fundanna. ?Fundirnir og skipulag þeirra var mjög markvisst og sérlega ánægjulegt að fá þennan vettvang þar sem kastljósinu er beint að vetrinum. Þarna hittum við þá aðila sem eru að selja landið, gátum kynnt fyrir þeim hvað Ísland hefur að bjóða á veturna og fengum síðan líflegar umræður í lokin, sem var gulls í gildi,? segir Yngvi Ragnar.

Bæði glaður og hryggur
Í raun sagðist hann vera bæði glaður og hryggur í kjölfar þessara funda. ?Ég er glaður vegna þess að söluaðilarnir voru sammála um að markaðurinn fyrir vetrarferðamennsku á Íslandi væri til staðar en hryggur vegna þess að einhverra hluta vegna hafa þau skilaboð ekki komist til skila til þeirra fram til þess. Maður spyr sig því hvað hefur brugðist, hvernig á því stendur að söluaðilarnir vissu ekki af þessum möguleikum. En bara það eitt að komast að þessu er mikilvægt fyrir okkur. Mér sýnist því ljóst að við þurfum að vera duglegri við að sýna veturinn því hann er það tímabil sem okkur vantar hvað mest út á landi. Við spurðum líka söluaðilana hverja þeir teldu vera söluvöruna. Hvort það væri t.d. norðurljósin eða afþreyingin. Samdóma álit þeirra var hins vegar að söluvaran væri íslensk náttúra í vetrarbúningi. Hún er einsök í sinni röð, rétt eins og íslensk náttúra á sumrin á enga sinn líka. Hins vegar eru auðvitað norðurljósin, þjónusta og afþreying á staðnum líka nauðsynleg til að njóta vetrarins til hins ýtrasta. En hér eigum við verk að vinna og sóknarfæri sem við þurfum að nýta,? segir Yngvi Ragnar.