Vestnorden í 40 ár - Komum saman!
Í liðinni viku var Vestnorden ferðakaupstefnan (Vestnorden Travel Mart) haldin á Akureyri með þátttöku um 500 manns víðsvegar að úr heiminum. Vestnorden hefur í 40 ár sameinað Ísland, Færeyjar og Grænland í ferðamálum en fyrsta kaupstefnan var haldin árið 1986 í Reykjavík.
Viðburðurinn hófst sem einfalt samstarf en varð fljótt mikilvægur vettvangur þar sem hótel, bílaleigur, flugfélög og afþreyingarfyrirtæki gátu tengst beint erlendum markaði. Þátttakan óx hratt og ráðstefnan hefur síðan verið haldin til skiptis af löndunum þremur. Með tilkomu aukinna flugsamganga og síðar samstarfs innan NATA (North Atlantic Tourism Association) hefur samband landanna styrkst enn frekar.
Með nokkrum sanni má segja að Vestnorden hafi markað upphafið að skipulegri markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar og verið lykilþáttur í vexti ferðamennsku á 9. áratugnum.
Í dag endurspeglar Vestnorden sameiginlega framtíðarsýn þriggja þjóða sem hafa þróað greinina á ólíkan hátt en deila sömu hugsun: að ferðamennska sé byggð á tengslum, samvinnu og vináttu.
Í tilefni af 40 ára sögu Vestnorden er ekki úr vegi að fá frumkvöðlana og upphafsmennina til að rifja upp hvernig þetta kom til og hvaða þýðingu Vestnorden hefur haft fyrir þróun ferðamennsku í löndunum þremur.

Glatt á hjalla á Vestnorden fyrir 20 árum. Kristín Jóhannsdóttir, nú forstöðumaður Eldheima í Vestmannaeyjum og Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu.

Starfsfólk Ferðamálastofu (þá Ferðamálaráð Íslands) á Vestnorden 2004. Haukur Birgisson, Ársæll Harðarson og Lisbeth Jensen.
Komum saman!
Áhugavert er að orðasambandið "Koma saman" er skrifað og borið fram eins í íslensku og færeysku. Og í 40 ár hafa þjóðirnar þrjár – Ísland, Færeyjar og Grænland einmitt gert þetta – komið saman ár hvert á ferðakaupstefnunni Vestnorden.
Sjórinn sem umlykur þjóðirnar þrjár, Vestur-Norður-Atlantshafið, hefur í gegnum söguna bæði aðskilið og sameinað þessar þrjár eyþjóðir. Því er kannski engin furða að sagan um Vestnorden hefjist með skipi. Farþegaferjan Norröna frá Smyril Line sigldi fyrst frá Þórshöfn til Seyðisfjarðar árið 1984.
Vikulegar ferðir Smyril Line opnuðu nýjan kafla í ferðamennsku og vestnorrænu samstarfi. Jónas Hallgrímsson, umboðsmaður Smyril Line á Íslandi, sagði í blaðinu Degi 20. júlí 1988: „Það segir sig sjálft að ef engar samgöngur eru á milli landa, þá er ekki heldur um nein viðskipti að ræða.“ (https://timarit.is/page/2684013#page/n6/mode/2up)

Ráðherrar ferðamamála á Íslandi og í Færeyjum undirrita samning um framhald FITUR-samstarfsins haustið 2002. Talið frá vinstri: Steinn Lárusson, formaður FITUR; Magnús Oddsson, ferðamálastjóri; Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Bjarni Djurholm, atvinnumálaráðherra Færeyja og Heri H. Niclasen, ferðamálastjóri Færeyja.
Fyrstu skrefin
Reynir Adolfsson var ráðinn sem ferðamálafulltrúi, staðsettur á Austfjörðum, til að byggja upp nýja grein innan Vestnorden-samstarfsins. Hann hafði áður heimsótt ferðakaupstefnu í Álaborg í Danmörku og fór einnig ásamt Jákub Veyhe, ferðamálastjóra Færeyja, til Grænlands að funda með þarlendum ráðamönnum. Í framhaldinu var ákveðið að löndin myndu standa fyrir ferðakaupstefnu fyrir allt Vestnorræna svæðið.
Reynir hóf nú að hringja í forystumenn greinarinnar til að útskýra hugmyndina. Það þurfti í sjálfu sé ekki að hringja í marga; ferðamennska á Íslandi var á þeim tíma nær eingöngu í höndum Flugleiða, nokkurra rútufyrirtækja og Ferðaskrifstofu ríkisins. En vissulega kostaði samt undirbúningurinn mikla vinnu. Bæði fjármögnunin og að fá alla um borð.
„Við höfðum til mikils að vinna,“ segir Reynir. „Fyrir hótel og bílaleigur var þetta í fyrsta skipti sem þau gátu haft beina snertingu við markaðinn.“
Reynir Adolfsson, lengst til hægri, á Vestnorden 2008
Byrjað í kjallara
Á fyrstu Vestnorden kaupstefnuna mættu 180 þátttakendur frá 15 löndum, samkvæmt fréttum. Hótel í Reykjavík seldust upp. Staðurinn var kjallari Laugardalshallar þar sem í seinni tíð hefur m.a. verið aðstaða kraftlyftingafólks og fleiri.
Sigfús Erlingsson, markaðsstjóri Flugleiða, gaf verkefninu byr undir báða vængi – ef svo má segja – með því að bjóða góð kjör á flugi og gistingu.
Mætingin varð betri en búist var við og þar sem sífellt fleiri ferðaskrifstofur tilkynntu þátttöku, þurfti Reynir að skipuleggja dagskrána allt til síðustu stundar. „Ég þurfti að para hvern gest við söluaðila í 20 mínútna fundi. Þannig er það enn gert í dag, en á þeim tíma þurfti að gera allt handvirkt.“
Síðasta kvöldið, þegar allir komu saman til að skála, tilkynntu fulltrúar Grænlands að næsta Vestnorden Travel Mart yrði haldið í Nuuk. Það varð stærsta ráðstefna sem haldin hafði verið á Grænlandi á þeim tíma. Síðar hafa fundir verið haldnir í Ilulissat, Kangerlussuaq og víðar. Ísland og Færeyjar hafa einnig haldið kaupstefnunna utan sinna höfuðstaða.
Klókt að sameina kraftana

Bergþór Karlsson og Steingrímur Birgisson hafa ósjaldan staðið vaktina á Vestnorden fyrir Bílaleigu Akureyrar. Hér á Vestnorden 2002 á Akureyri.
Á Vestnorden 2010. Arnar Már Ólafsson, nú ferðamálastjóri, og Elín Sigurðardóttir, kynna Icelandic Mountainguides fyrir væntanlegum viðskiptavinum
„Eftir á að hyggja var klókt hjá löndunum þremur að sameina krafta,“ segir Magnús Oddsson, fyrrverandi ferðamálastjóri. „Þá höfðu stjórnvöld stofnað Vestnorræna ráðið og vildu einnig efla viðskiptasamstarf. Án ráðsins hefði ferðakaupstefnan líklega misst afl með tímanum.“
Árið 1985 hafði fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi aukist um þriðjung á skömmum tíma, í 97 þúsund manns. Þessi vöxtur fór saman með fyrstu sameiginlegu kynningu Íslands sem áfangastaðar. „Þetta var flugtakið fyrir ferðamennsku sem oft gleymist í dag þegar litið er á greinina sem nýja hér á landi,“ segir Magnús og leggur áherslu á mikilvægi Vestnorden á þessum tíma.
Ferðamennska hefur haft mismunandi áhrif á löndin þrjú. Ísland hefur lengi notið tengingar Icelandair og forvera þess yfir Atlantshafið. Færeyjar fengu áður flesta gesti frá Skandinavíu en Grænland var lítið heimsótt nema af auðugum ævintýramönnum.
Nú á dögum hefur markhópurinn sem sækir þessi þrjú lönd orðið mun líkari hvað varðar menntun og félagslegan bakgrunn, aldur og tekjur.
Magni Arge, formaður Ferðamálaráðs Færeyja og fv. forstjóri Atlantic Airways, segir að Vestnorden hafi verið lykilatriði í að samhæfa flug innan Vestnorden. Samtengdar flugleiðir til Grænlands og Færeyja um Ísland hafi gert löndin þrjú að einum markaði. „Í upphafi snerist Vestnorden um að byggja upp tengslanet milli lykilaðila. Net sem við tökum kannski sem sjálfsögðu í dag,“ segir Arge.
Steinn Lárusson, reynslubolti í greininni, er sammála. „Ísland hjálpaði Grænlandi að opnast fyrir ferðamennsku,“ segir hann, „miklu meira en Danmörk nokkru sinni gerði.“
Undir hatti NATA í 20 ár
Vestnorden hefur verið hluti af North Atlantic Tourism Association (NATA) síðan 2006, þegar þrjú samtök voru sameinuð undir hatti NATA. VNTB (Vest Nordic Tourist Board), SAMIK (grænlenskt/íslenskt samstarf) og FITUR (íslenskt/færeyskt samstarf). Markmiðið var að auka vitund um löndin þrjú sem ákjósanlega áfangastaði ferðamanna.
Undir væng NATA hefur verkefnið einnig stutt samstarf og ferðalög milli landanna þriggja. Ár hvert veitir NATA styrki til ferðaþjónustufyrirtækja um samstarfsverkefni á sviði nýsköpunar- og vöruþróunar. Einnig eru veittir ferðastyrkir vegna kynnis- og námsferða félaga sem vilja heimsækja næsta nágranna sinn. Þetta hefur sérstaklega styrkt tengsl íþrótta og menningar.
Allir sem rætt var við nefndu mikilvægi vináttu og persónulegra tengsla. Vestnorrænu þjóðirnar hafa þróað sínar greinar með ólíkum hætti, segir Magni Arge, en íbúarnir deila svipuðu gildum. „Við skiljum hvert annað,“ segir hann. „Það er sterkt samband.“
Texti: Egill Bjarnason
Hvar og hvenær frá 1986


Magnús Oddsson ferðamálastjóri og Steinn Lárusson, lengi forstöðumaður hjá Icelandair, á Vestnorden 2006.

Helena Dajak og samstarfskonur hennar hjá Ferðaskrifstofunni Nonna, prúðbúnar á Vestnorden 2002.

Séð yfir salinn í Íþróttahöllinni á Akureyri 2002.

Nóg að gera í bás Bláa lónsins á Vestnorden 2004.
Í Færeyjum 2024. Anne Nivika Grödem (núverandi formaður NATA, frá Grænlandi), Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri og Guðrið Höjgaard frá Færeyjum.

Vestnorden á Akureyri 2025.