Vestnorden haldin á Akureyri 2010

Vestnorden haldin á Akureyri 2010
Hof Akureyri

Ákveðið hefur verið að hin árlega Vestnorden ferðakaupstefna verði haldin á Akureyri næsta haust. Fer hún fram í nýja menningar- og ráðstefnuhúsinu Hofi, og verður væntanlega einn fyrsti viðburðurinn í húsinu eftir opnun þess.

Stærsti viðburður í ferðaþjónustunni
Dagsetning kaupstefnunnar er 14.-16. september. Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands, standa að kaupstefnunni og verður Vestnorden á Akureyri sú 25. í röðinni. Kaupstefan er haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Vestnorden er jafnan stærsti viðburðurinn í ferðaþjónustu hérlendis en um 560 þátttakendur voru skráðir síðast þegar kaupstefnan var haldin á Íslandi. Síðast var Vestnorden haldin á Akureyri árið 2002, þá í Íþróttahöllinni. Ferðamálastofa er aðili að NATA fyrir Íslands hönd og sér um framkvæmd Vestnorden þegar kaupstefnan er haldin hér á landi.

Þátttakendur koma víða að
Sýnendur eða seljendur á kaupstefnunni eru ferðaþjónustuaðilar frá vestnorrænu löndunum þremur og á Vestnorden hitta þeir ferðaheildsala hvaðanæva að úr heiminum og eiga með þeim stutta fundi sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Þarna er um að ræða fyrirtæki sem eru að selja, eða hafa hug á að selja, ferðir til vestnorrænu landanna.

Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Markaðsskrifstofu Norðurlands, sagðist himinsæll með að fá Vestnorden norður yfir heiðar að þessu sinni. ?Það er okkur mikill heiður að Vestnorden verði haldin í Hofi og verði fyrsta stóra alþjóðlega ráðstefnan í húsinu. Að sama skapi sé ég þetta sem stórt tækifæri fyrir ferðaþjónustu hér á Norðurlandi að koma sér á framfæri,? segir Ásbjörn.


Athugasemdir