Fara í efni

Vestnorden ferðakaupstefnan haldin í 24. sinn

Vestnorden 2009
Vestnorden 2009

Vestnorden ferðakaupstefnan verður sett í Kaupmannahöfn á morgun og er þetta sú 24. í röðinni. Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands, standa að Vestnorden. Er kaupstefan haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Að þessu sinni er framkvæmdin á hendi Grænlendinga.

Kaupendur víða að
Formleg dagskrá Vestnorden hefst á morgun með ráðstefnu sem stendur fram að hádegi. Er það nýjung á Vestnorden. Eftir hádegi hefst hin eiginlega kaupstefna með fundum kaupenda og seljanda, eða ferðaheildsala. Tæplega 120 fyrirtæki frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi eru nú skráð og kynna vöru og þjónustu fyrir kaupendum. Íslensk fyrirtæki eru flest eins og jafnan áður eða um 80 talsins að þessu sinni. Ferðaheildsalarnir eða kaupendurnir eru 86 talsins og koma frá Bandaríkjunum, Ástralíu, Bretlandi, Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu. Þá koma einnig til kaupstefnunnar blaðamenn og boðsgestir.

Eftir að kaupstefnunni lýkur, á hádegi miðvikudaginn, gefst ferðaheildsölunum kostur á að fara í  kynnisferðir til Íslands og Færeyja. Nánari upplýsingar um dagskrá og þátttakendur á Vestnorden 2009 er að finna á vefsíðunni: www.vestnorden.com. Meðfylgjandi mynd var tekin á Vestnorden í Reykjavík í fyrrahaust.