Fara í efni

Vestnorden 2010 - viðburður sem enginn í íslenskri ferðaþjónustu má missa af

Hof
Hof

Nú eru rétt um tveir mánuðir þar til hin árlega Vestnorden ferðakaupstefnan verður haldin. Íslendingar sjá um framkvæmdina í ár og má búast við fjölbreyttri og líflegri kaupstefnu.

Segja má að Vestnorden 2010 hafi vissa sérstöðu. Bæði fer hún nú fram í 25. sinn og því um afmælisár að ræða. Þá var henni valinn staður á Akureyri, í hinu glænýja ráðstefnu- og menningarhúsi Hofi, sem nú er verið að keppast við að leggja lokahönd á.

Vaxandi áhugi fólks á norðurslóðum
Ferðamálayfirvöld á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum standa sem fyrr að Vestnorden undir merkjum NATA-samstarfsins og sér fyrirtækið Congress Reykjavík um skipulagninguna nú. ?Það er vissulega nokkuð sérstakt að halda Vestnorden á þessu afmælisári og við finnum fyrir auknum áhuga af þeim sökum. Það er ekki endilega sjálfgefið að viðburðir sem þessir hafi svo langan líftíma, sem er bæði til marks um það góða samstarf sem er á milli landanna þriggja í þessum málum og eins vaxandi áhuga fólks á norðurslóðum,? segir Lára B. Pétursdóttir hjá Congress Reykjavík.

Skráning á vestnorden.com
Á Vestnorden eiga ferðaþjónustuaðilar frá löndunum þremur kost á að hitta ferðaheildsala víða að en síðast þegar kaupstefnan var haldin hér á landi tóku þátt rúmlega 200 ferðaheildsalar frá tæplega 30 löndum. Skráningar eru komnar vel af stað en skráningarfrestur er til 5. ágúst. Ég hvet ferðaþjónustuaðila til að skrá sig sem fyrst því Vestnorden 2010 er viðburður sem enginn í íslenskri ferðaþjónustu má missa af,? segir Lára. Skráning og nánari upplýsingar eru á vef Vestnorden www.vestnorden.com.

Sýnendur bóki gistingu sem fyrst
Sýnendur sjá sjálfir um að bóka gistingu sína fyrir norðan og þeir eru hvattir til að gera það fyrir 31. júlí - eftir það geta skipuleggjendur ekki ábyrgst að gisting sé til staðar en núna er næga gistingu að fá: Sjá nánar á vef Vestnorden 2010