Vestfirðir - besti áfangastaður á Norðurlöndum.

Ferðamálaráð Vestfjarða hefur hlotið fyrstu verðlaun í samkeppninni "Scandinavian Travel Award 2001", um sérstök ferðaþjónustuverðlaun sem veitt voru á Skandinavíuhátíð í Berlín helgina 24.-25. nóv. s.l.
Dómnefnd keppninnar segir að undir stjórn Dorothee Lubecki, ferðamálafulltrúa Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, hafi verið unnið framúrskarandi starf í þágu uppbyggingar ferðaþjónustu á Vestfjörðum en einnig sé heildarhugmyndin að baki uppbyggingunni afar eftirtektaverð.
Í umsókn í keppnina er fjallað sérstaklega um þrjú verkefni sem verið er að vinna að í ferðamálaráði Vestfjarða; Sagnareka, Galdrasýninguna á Ströndum og Svaðilfara hestaferðir.
Vestfirðir eru samkvæmt úrskurði dómnefndarinnar besti kosturinn þegar ferðamenn ákveða áfangastað á Norðurlöndum þar sem landslagið sé stórbrotið með sínum djúpu fjörðum og háu og tignarlegu fjöllum og aðstaða til að skoða fróðlega staði hin besta þar sem vel hefur verið búið að þörfum ferðamannsins.
Þetta er í fyrsta skipti sem þessi verðlaun eru veitt og er það þýska útgáfufyrirtækið Nordis sem hefur frumkvæði að samkeppninni. Nordis hefur starfað í Þýskalandi í um tuttugu ár og sérhæfir síg í útgáfu kynningarefnis um Norðurlönd.

Úr Morgunblaðinu


Ferðamálaráð Íslands sendir ferðaþjónustuaðilum og Vestfirðingum öllum hamingjuóskir og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

 


Athugasemdir