Veruleg fjölgun fyrstu tvo mánuði ársins

Veruleg fjölgun fyrstu tvo mánuði ársins
Norðurljós

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 20,5% fyrstu tvo mánuði ársins, miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð. Í ár voru ferðamennirnir 36.484 en 30.276 fyrstu tvo mánuði ársins 2006.

Fjölgun er í báðum mánuðum ársins, 22,3% í janúar og 18,6% í febrúar. Sé litið á tölur frá helstu markaðssvæðum frá áramótum vekur athygli góð fjölgun frá Bretlandi og Skandinavíu, rúm 35% frá hvoru svæði. Ferðamenn frá Mið-Evróu eru nánast jafn margir og í fyrra en þó nokkur fækkun er frá Bandaríkjunum. Búist var við fækkun frá Bandaríkjunum í vetur vegna breyttrar vetraráætlunar Icelandair, þar sem flugi til Baltimore og Minneapolis var hætt tímabundið.

Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu ferðamanna eftir þjóðerni fyrstu tvo mánuði ársins og samanburð við árið 2006. ?Það er verulega ánægjulegt að sjá svo mikla aukningu ferðamanna yfir háveturinn,? segir Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. ?Fjöldi erlendra ferðamanna í janúar í ár er kominn í sömu tölu og hingað komu í apríl fyrir 5 árum,? bætir Ársæll við. ?Við erum bjartsýn á framhaldið. Miðað við framboð á flugsætum framundan, lækkun virðisaukaskatts á veitingar og gistingu og áframhald á öflugri markaðssetningu á Íslandi á erlendum mörkuðum, verður ekki annað séð en að búast megi við góðu vori og sumri í ár, segir Ársæll að lokum.

Heildarniðurstöður má finna hér á vefnum undir liðnum Talnaefni/Fjöldi ferðamanna

Frá áramótum
  2006 2007 Mism. %
Bandaríkin                     5.302 3.753 -1.549 -29,2%
Bretland                       7.117 9.631 2.514 35,3%
Danmörk                        2.834 3.732 898 31,7%
Finnland                       471 637 166 35,2%
Frakkland                      1.436 1.232 -204 -14,2%
Holland                        936 895 -41 -4,4%
Ítalía                         301 408 107 35,5%
Japan                          1.243 1.242 -1 -0,1%
Kanada                         258 328 70 27,1%
Noregur                        2.393 3.043 650 27,2%
Spánn                          283 274 -9 -3,2%
Sviss                          200 367 167 83,5%
Svíþjóð                        1.710 2.654 944 55,2%
Þýskaland                      2.003 1.944 -59 -2,9%
Önnur þjóðerni                 3.789 6.344 2.555 67,4%
Samtals: 30.276 36.484 6.208 20,5%

 


Athugasemdir