Vel tókst til með ?Fóður og fjör á landsbyggðinni?

Vel tókst til með ?Fóður og fjör á landsbyggðinni?
logo fóður og fjör

Sömu helgi og matar- og skemmtihátíðin ?Food & Fun? var haldin í Reykjavík tóku 11 hótel og veitingastaðir víða um land sig saman og héldu viðburð sem þau kölluðu ?Fóður og fjör?. Tilgangur hátíðarinnar var að kynna þann fjölda veitinga- og gististaða úti á landi sem eru með opið allt árið og auka þannig viðskiptin yfir háveturinn.

Áslaug Alfreðsdóttir á Hótel Ísafirði sat í verkefnisstjórn og að hennar sögn kom hugmyndin um að efna til matarhátíðar úti á landi upp um síðustu áramót. Markmiðið var að nýta sér þá miklu umræðu sem er í þjóðfélaginu í kringum Food and fun hátíðina. ?Þetta var í fyrsta sinn sem hótel og veitingastaðir á landsbyggðinni taka sig saman í þessum tilgangi. Allir hafa staðirnir á að skipa vel menntuðu og hæfu starfsfólki sem leggur metnað sinn í starf sitt og er vel í stakk búið til að takast á við krefjandi verkefni sem þetta. Einnig var lögð áhersla á að auðga menningu og mannlíf á landsbyggðinni, kynna íslenskt hráefni og ekki síður landið að vetrarlagi,? segir Áslaug. Þátttakendur voru allir með eigin útfærslur á hátíðinni sem varð þannig mjög fjölbreytt.

Vonumst eftir áframhaldandi samstarfi
Áslaug segir engum blöðum um það að fletta að hátíðin hafi staðið undir væntingum gesta og fékk hún töluverða umfjöllun þrátt fyrir skamman aðdraganda. ?Ljóst er að landsbyggðarhátíðin verður alltaf örlítið frábrugðin þeirri reykvísku og það er allt í lagi, allt þarf ekki að vera steypt í sama mót. Við vonumst eftir áframhaldandi samstarfi enda er um að ræða mjög skemmtilegt verkefni sem gaman er að vinna með góðu fólki. Við erum raunar í sjöunda himni hér eftir þessa helgi. Það sem upp úr stendur er að vel var tekið á móti þessari nýbreytni og allt gekk vel,? segir Áslaug.

Samstarfið
Sem fyrr segir tóku 11 fyrirtæki þátt í verkefninu: Veitingastaðurinn við Pollinn, Hótel Glymur, Sel ? Hótel Mývatn, Hótel Hamar, Landnámssetur Íslands, Rauða húsið, Hótel Höfn, Friðrik V, Hótel Hérað, Hótel Rangá og Hótel Reynihlíð.

 


Athugasemdir