Fara í efni

Vel sóttur fundur í Vík

Síðastliðið fimmtudagskvöld var haldinn fundur á vegum Ferðamálaráðs og Ferðamálasamtaka Íslands í Vík í Mýrdal. Mjög góð þátttaka var í fundinum og mættu alls um 40 ferðaþjónustuaðilar.

Formaður Ferðamálaráðs, Einar Kr. Guðfinnsson, flutti inngangserindi og síðan fór Magnús Oddsson ferðamálastjóri yfir stöðu og horfur í ferðaþjónustu nú í upphafi árs. Þá kynnti Eymundur Gunnarsson ferðamálafulltrúi það sem er að gerast í ferðaþjónustu á svæðinu. Að því loknu voru almennar umræður og fyrirspurnir. Auk heimamanna og fyrirlesara tóku þátt í þeim Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, og Ísólfur Gylfi Pálmason, varaformaður Ferðamáalráðs. Fundurinn stóð í tæpa þrjá klukkutíma enda mörg málefni sem áhugi var á að ræða.

Fundurinn í Vík var liður í fundaröð Ferðamálaráðs og Ferðamálasamtaka Íslands og var 8. almenni fundurinn sem haldinn er með þessu sniði.