Vel sóttur fundur hjá Cruise Iceland

Vel sóttur fundur hjá Cruise Iceland
Skemmtiferðaskip

Síðastliðinn föstudag stóðu  samtökin Cruise Iceland fyrir fundi um skemmtiferðaskip ? þróun og horfur í nútíð og framtíð. Fundurinn var vel sóttur og var fólk almennt ánægt með hvernig til tókst, að sögn Öldu Þrastardóttur, verkefnisstjóra hjá Ferðamálastofu, sem vann að skipulagningu fundarins fyrir Cruise Iceland.

Ört vaxandi ferðamáti
Gestur fundarins og aðal ræðumaður var Christopher Hayman, ritstjóri og útgefandi tímaritsins Seatrade í Englandi. Christopher hefur víðtæka þekkingu á öllu því sem snertir þróun og uppbyggingu þessa ferðamáta og hefur hann undanfarin 20 ár stofnað til og stjórnað ráðstefnum um málefni skemmtiferðaskipa víða um heim.Fjallaði hann  um þróun þessa ferðamáta í Evrópu og spáði í framtíðina þar. Í erindi hans kom m.a. fram að um 13 milljónir manna hvaðanæva að úr heiminum ferðuðust með skemmtiferðaskipum árið 2005, langflestir frá Bandaríkjunum eða um 9 milljónir. Er þetta aukning frá árinu áður. Framtíðarspár fyrir greinina sýna að það eru vænlegir tímar framundan og er áætlað að árið 2010 verði talan komin í um 18 milljónir og árið 2015 verði skemmtiskipaferðamenn komnir upp í tæplega 24 milljónir.

Tvöföldun á 5 árum
Ástæðurnar fyrir svo örum vexti í farþegafjölda eru m.a. þær að ánægjustuðull farþega er fara í skemmtiferðasiglingu er mjög hár, áfangastaðirnir fjölbreyttir og þetta er þægilegur ferðamáti þar sem nánast allt er innifalið og allt vel þess virði. Karabíska svæðið er langstærsta markaðssvæðið þar á eftir kemur Miðjarðarhafssvæðið, svo Alaska, Mexíkó West (Riviera) og svo Evrópa / Skandinavía. Norður Evrópusvæðið hefur þó farið vaxandi með hverju ári. Sem dæmi má nefna að árið 2000 komu um 2,5 milljón manna með skemmtiferðaskipum á þetta svæði. Í fyrra árið 2005 voru farþegarnir rúmlega 5 milljónir. Skipakomur voru 2500 árið 2000 en rúmlega 5000 í fyrra. Þannig að bæði farþegafjöldi svo og skipakomur hafa tvöfaldast á þessum fimm árum.

Ýmsir þættir  hafa áhrif á dreifingu á markaðina. T.d. hagnaðarmöguleikar, veðurfar og landfræðilega, skipastærð og samsetning ferðaiðnaðarins  á hverju svæði fyrir sig og fl. Afþreyingarþátturinn er einnig mjög mikilvægur. Árið 1996 var að meðaltali boðið upp á 3-5 ferðir frá hverri höfn. Í dag er þessi meðaltalstala komin upp í 10-15 ferðir frá stóru höfnunum á stærri mörkuðunum.

Áhugaverð könnun kynnt
Á fundinum kynnti einnig Anna Karlsdóttir niðurstöður könnunar sem Cruise Iceland lét gera á meðal skemmtiskipafarþega sem hingað komu s.l. sumar. Skemmtiskipaferðamennska er vaxandi þáttur innan ferðaþjónustunnar hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Samkvæmt þeim svarendum sem tóku þátt í könnuninni í sumar ber land og þjóð af sér góðan þokka og náttúran er okkar helsta aðdráttarafl.

Könnunin var lögð fyrir farþegana á tímabilinu frá 14. júlí ? 9. ágúst og voru svarendur 1042 talsins aðallega Þjóðverjar og Bretar. Farþegar eru almennt mjög jákvæðir hvað varðar ferðalagið til Íslands og langflestir gefa Íslandi sem áfangastað hæstu einkunn. 78% svarenda eru að koma í fyrsta skiptið til Íslands og um 80% fannst mikilvægt að Ísland var í leiðaáætlun þegar kom að því að velja ferð. Þó fannst sumum sem viðkoma hér á landi væri helst til of stutt. 44% svarenda hefði viljað vera 3 dögum lengur, 32% 3 dögum lengur og 24% 1 degi lengur. Farþegarnir eru m.a. að fá upplýsingar um landið hjá skipafélögunum, úr bókum og á netinu. Langflestir gefa afþreyingu í landi hæstu einkunn en þeim finnst verðlag of hátt.

Langflestir Þjóðverjar eða um 59% eyða sínum peningum í minjagripi á meðan einungis 13% Bretar eyðir í sama. Þegar spurt var hvað yrði efst á óskalistanum við endurkomu svöruðu flestir gönguferð (hiking) því næst komu skoðunarferðir hverskonar og svo upplifun á  náttúru og menningu. Náttúran er það sem ber hæst hjá ferðamönnunum og þegar spurt er hvað sé minnisstæðast úr ferðinni eru svörin flest tengd náttúrunni og upplifun á henni s.s. eins og landslag, náttúruundur, hraun, eldvirkni jarðhiti, Bláa Lónið, fossar og fl.


 


Athugasemdir