Fara í efni

Vel sótt námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila

Ferðamálasamtök Íslands hafa staðið fyrir námskeiðum fyrir rekstraraðila í ferðaþjónustu undanfarinn mánuð. Haldin verða alls 14 námskeið og er 10 þeirra lokið.

Á námskeiðunum er fjallað um viðskiptaáætlanir, fjárhags- og rekstraráætlanir, bankaviðskipti og bókhald og notkun þess. Nú þegar hafa 10 námskeið verið haldin með um 140 þátttakendum. Námskeiðin hafa því verið almennt vel sótt og gerður hefur verið góður rómur að erindum fyrirlesara sem eru sérfræðingar frá Landsbankanum, ráðgjafafyrirtækinu Deloitte og frá Ferðamálasetri Íslands.

Tekist framar vonum
Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, segir verkefnið hafa tekist framar vonum og þátttakendum hafi mjög vel líkað og tekið almennt mikinn þátt með umræðum og fyrirspurnir til fyrirlesara. Vildi hann sérstakelga þakka samstarfsaðilunum samvinnuna og þátttakendum áhuga þeirra.

Þau 4 námskeið sem eftir eru verða haldin á eftirtöldum stöðum:

Vestmannaeyjum 14. apríl
Ísafirði 16. apríl
Reykjanesbæ 21. apríl
Reykjavík 23. apríl

Flugfélag Íslands og bílaleigan ALP hafa flutt fyrirlesara á námskeiðsstaðina og Byggðastofnun og samgönguráðuneytið styrktu verkefni auk áðurnefndra aðila.