Vel heppnað málþing um upplýsingaveitu til ferðamanna

Gary

Gary Breen frá Fáilte Ireland fór yfir hverning Írar endurskoðuðu upplýsingagjöf til ferðafólks fyrir nokkru síðan og reynsluna af þeirri vinnu.

Ferðamálastofa, markaðsstofur landshlutanna og Safetravel vinna nú að því að endurskoða upplýsingaveitu til ferðamanna. Í því felst m.a. breytt skipulag upplýsingamiðstöðva og almennt hvernig upplýsingum er miðlað til ferðafólks. Af því tilefni var á dögunum haldið málþing í Borgarnesi þar sem stefnt var saman þeim sem eiga aðkomu að málaflokknum með einum eða öðrum hætti.

Vönduð og samræmd upplýsingagjöf lykilatriði

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, formaður Ferðamálaráðs setti málþingið og fjallaði í ræðu sinni um mikilvægi vandaðar og samræmdar upplýsingamiðlunar um land allt. Unnur benti jafnframt á hve sterkt vönduð upplýsingamiðlun tengist Vegvísi um ferðaþjónustu. Hún sé mikilvæg til að tryggja upplifun og ánægju ferðamannsins og með góðum upplýsingum um vegalengdir, staðhætti, veður, færð og fleira sé ýtt undir að ferðamenn fari sem víðast um landið. „Vönduð upplýsingamiðlun til ferðamanna mun líka kalla á aukna fagmennsku og þjálfun starfsmanna sem svo eykur hæfni og gæði ferðaþjónustunnar í heild sinni,“ sagði Unnur Valborg.

Írar miðla af reynslu sinni

Sérstakur gestur á málþinginu var hinn írski Gary Breen sem kynnti starfsemi Fáilte Ireland. Á Írlandi var kerfið sem heldur utan um upplýsingamiðstöðvar tekið í gegn fyrir nokkrum árum. Breen fór nokkuð ítarlega yfir þær breytingar sem gerðar voru, hvert markmiðið var og hver reynsla Íra er af þjónustu við ferðamenn sem leita til upplýsingamiðstöðvanna. 

Nýtt kerfi áformað 2019

Að loknum erindum voru haldnar vinnustofur þar sem farið var dýpra í einstök málefni verkefnisins; öryggismál, hæfni og gæði, og samstarf og samræmingu. Unnið hefur verið að verkefninu frá árinu 2015 en áætlað er að nýju kerfi verði komið á í upphafi ársins 2019.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir hjá Ferðamálastofu, hrafnhildur@ferdamalastofa.is

 


Athugasemdir