Fara í efni

Vel heppnað haustþing Vestfirðinga

haustthingVestfirdinga
haustthingVestfirdinga

Ferðamálasamtök Vestfjarða héldu haustþing sitt í Flókalundi í Vatnsfirði á dögunum. Ýmis mál voru til umræðu og var þingi í alla staði gagnlegt, að sögn Jóhanns Ásmundssonar, formanns samtakanna.

Innri mál ferðaþjónustunnar
Á fyrri hluta þingsins, sem stór yfir í tvo daga, var fjallað um Innri mál ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum. M.a. fór Dorothee Lubecki ferðamálafulltrúi yfir nýliðið sumar með tilliti til ferðaþjónustunnar og Neil Shiran Þórisson fjallaði um mótun markaðsstefnu Ferðamálasamtaka Vestfjarða. Einnig var kynning á uppfærðum ferðamálavef samtakanna og uppbygging upplýsingamiðstöðva á Vestfjörðum var tekin fyrir, svo nokkuð sé nefnt..

Ferðaþjónustan og friðlönd
Annað meginefni var ferðaþjónustan og friðlönd. Þar var meðal annars fjallað um samband ferðaþjónustunnar og náttúrunnar og hvernig sérstaða Vestfjarða yrði best nýtt ferðaþjónustunni til framgangs. Jóhann segir umræður hafa verið fjörugar og margar góðar hugmyndir hafi safnast saman sem teknar verði til frekari skoðunar hjá vestfirskum ferðaþjónum í vetur. "Við vorum með mjög skemmtilega og góða fyrirlesara, þar á meðal Skúla Skúlason, rektor Hólaskóla, sem kom með nokkurs konar forspjallsinnlegg inn í þessa náttúruferðamennsku og lýsti því hvaða aðferðir væri hægt að notast við til að byggja upp sjálfbæra ferðamennsku. Það má segja að efnið snúi að stefnumótandi þáttum hjá okkur, hvernig við getum byggt upp okkar náttúruvænu ferðamennsku og jafnframt haldið í sérstöðu okkar".

Fróðleg erindi og umræður
Flutt voru erindi um friðlönd og þjóðgarða en Jóhann segir gagnlegt að gera grein fyrir mismunandi vægi skilgreininga eins og friðlanda og náttúruvætta. Einnig voru flutt erindi um skipulagsmál. "Þetta var mjög upplýsandi því margir höfðu ekki gert sér grein fyrir að með nýjum lögum eru það sveitarstjórnir sem eiga að hafa frumkvæði að aðal- og deiliskipulagi á sínu landi, einnig þar sem eru friðlönd eða þjóðgarðar", segir Jóhann. Hörður Sigurbjarnarson frá hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu á Húsavík flutti erindi um tilurð og stofnun fyrirtækisins. Þar kom fram að hvatinn að stofnun þess var áhugi á varðveislu gamalla eikarbáta sem þá voru að syngja sitt síðasta en hafi síðan fengið nýtt hlutverk við náttúruskoðun á hafinu. "Þarna kom fram skemmtilegur vinkill. Hörður benti á að náttúra Íslands er ekki aðeins landið heldur hafið og ströndin líka. Um þetta spunnust miklar umræður, svo sem um það af hverju sveitarstjórnir hafi ekki meira um skipulag á hafsvæðinu út frá sínu landi að segja. Við höfum engin skipulagslög eða lög um umhverfismat að byggja á þegar farið er út í atvinnustarfsemi á hafinu. Það vantar að skipuleggja hvernig við ætlum að nýta strandlengjuna. Hún er mikilvæg fyrir ferðamennsku og aðra atvinnustarfsemi", segir Jóhann Ásmundsson.