Fara í efni

Vefur Iceland Express valinn sá besti

Iceland express vefur
Iceland express vefur

Vefur Iceland Express var valinn besti vefur lággjaldaflugfélaga á heimsráðstefnunni World Low Cost Airlines Congress sem fram fór í síðustu viku en vefsvæði yfir hundrað lággjaldaflugfélaga tóku þátt í forvali.

Á ráðstefnunni eru veitt ýmis verðlaun til þeirra lággjaldaflugfélaga sem hafa þótt skara fram úr á ýmsum sviðum. Við val á besta vefsvæði lággjaldaflugfélaga var lögð áhersla á að vefsvæðin væru stílhrein og að upplýsingar væru settar fram á skýran hátt. Sérstaklega mikilvægt var að bókunarferli væri einfalt og þægilegt í notkun. Jafnframt var tekið tillit til útlitshönnunar, mynda, textagerðar og hugmyndaauðgi við framsetningu efnis, segir í frétt frá Iceland Express.

Fyrir ráðstefnuna voru tilnefnd sjö vefsvæði sem þóttu skara fram úr og voru þar auk Iceland Express flugfélögin AirAsia, Wizz Air, Oasis Hong Kong, Silverjet, Tiger Airways og FlyNordic. Sérstök dómnefnd valdi síðan einn sigurvegara og þótti henni vefsvæði Iceland Express skara fram úr fyrir skýra framsetningu og góða hönnun.

?Þetta er frábær viðurkenning á þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í þróun vefsvæðisins okkar. Það er algert lykilatriði fyrir Iceland Express að vanda uppbyggingu vefsvæðisins því það er ekki bara andlit fyrirtækisins út á við heldur er það grundvöllur samskipta okkar við langflesta viðskiptavini. Að slá við öllum alþjóðlegum lággjaldaflugfélögum sem mörg hver eru með risastórar vefþróunardeildir er mikið afrek og full ástæða til að hrósa vefdeild okkar fyrir árangurinn,? segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express í fréttinni.