Fara í efni

Vefsvæði Ferðamálastofu gerð aðgengileg þeim sem eiga erfitt með lestur

Aðgengi sjonskertra að vef
Aðgengi sjonskertra að vef

Ferðamálastofa steig í vikunni skref í aðgengismálum. Þá voru virkjaðar breytingar á öllum vefsvæðum stofnunarinnar sem koma til móts við þarfir fólks sem á erfitt með að lesa, til dæmis vegna sjónskerðingar eða lesblindu.

Undanfarin ár hefur sá möguleiki verið fyrir hendi að notendur geta valið um mismunandi leturstærðir á vefsvæðum stofnunarinnar; ferdamalastofa.is, ferdalag.is og visiticeland.com. Nú er hins vegar stigið skrefi lengra og gerðar breytingar sem nýtast enn frekar áðurnefndum hópum. Með einum smelli fá notendur nýtt útlit upp á skjáinn þar sem áhersla er lögð á texta en myndrænt útlit látið víkja. Notendur geta síðan valið um nokkra bakgrunnsliti og liti á texta, allt eftir því hvað þægilegast er fyrir hvern og einn. Slíkt fer nokkuð eftir því hvaða lestrarörðugleika hver og einn á við að glíma. Til að virkja útlitið er smellt á bókstafinn A á svörtum grunni, ofarlega á forsíðum vefjanna hægra megin á skjánum. Slíkt tákn, á þessum stað á skjánum, er í dag algengasta aðferðin til að sýna að þjónusta sem þessi sé fyrir hendi á viðkomandi vef. Hægt er að kalla hið nýja útlit fram hvar sem fólk er statt á vefsvæðum Ferðamáalstofu. Tæknileg útfærsla var í höndum Betri lausna ehf. Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig táknið birtist á visiticeland.com.