Fara í efni

Vakinn áberandi í fjölmiðlum í allt sumar

Vakinn merki úr skeljum
Sjónvarpsáhorfendur hafa eflaust tekið eftir þessari fallegu mynd upp á síðkastið þar sem blásel er á skemmtilegan hátt notuð til að mynda merki Vakans.

Á dögunum fór af stað kynningarátak fyrir Vakann sem miðar að því að auka vitund gæða- og umhverfiskerfið og hlutverk þess, bæði meðal almennings og ferðaþjónustuaðila. Birtar verða auglýsingar í sjónvarps- , prent- og vefmiðlum og samfélagsmiðlar nýttir til að koma boðskapnum á framfæri.

Vakinn merkir gæði í hugum allra

„Við teljum mikilvægt að almenningur viti hvað Vakinn stendur fyrir, hvað felst í slíkri viðurkenningu og að merki Vakans verði í hugum viðskiptavina tengt við gæði, öryggi, fagmennsku og náttúruvernd,“ segir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs Ferðamálastofu, sem leitt hefur uppbyggingu Vakans frá upphafi. Samhliða aukinni vitund almennings segir Elías einnig tilganginn að ferðaþjónustuaðilar séu vel meðvitaðir um Vakann og sjái hag sinn í því að vera þátttakendur.

Hentar öllum fyrirtækjum

Fyrirtækjum innan Vakans fjölgar stöðugt en uppbygging kerfisins tekur mið af því að það hentar fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum. Nýlega voru kynnt síðustu viðmiðin í gistihluta þess, þ.e. fyrir tjaldsvæði, og má þá segja að Vakinn sé fullskapaður eins og hann var hugsaður í upphafi. Þróun Vakans heldur að sjálfssögðu áfram í formi endurskoðunar á viðmiðum og gerð nýrra viðmiða eða flokka eins og aðstæður og þróun ferðaþjónustunnar kalla eftir hverju sinni. 

Finnum mikinn meðbyr 

„Við finnum mikinn meðbyr með Vakanum enda gefur aukinn vitund um verndun umhverfisins og aukinn krafa um upplýsingar til neytenda, Vakanum byr undir báða vængi. Krafa viðskiptavina um að gæði, öryggi og fagmennska sé til staðar hefur vaxið samhliða fjölgun ferðamanna og ferðaþjónustuaðila og þar kemur Vakinn sterkur inn,“ segir Elías. Kynningarátakið er unnið af auglýsingastofunni Árnasonum í samstarfi við KOM og verður í gangi í allt sumar.

Reynslu þátttakenda miðlað

Hér að neðan má sjá tvö af þeim kynningarmyndböndum sem unnið hafa verið fyrir Vakann. Í því fyrra segir Björg Árnadóttir, framkvæmdastjóri Midgard Adventure, frá reynslu sinni af Vakanum og í því síðara Jimmy Wallster og Thelma Theodórsdóttir hjá Fosshótel.

Fleiri reynslusögur