Fara í efni

Úrslit hönnunarsamkeppni við Geysi

Úrslit hönnunarsamkeppni við Geysi

Einn stærsti styrkur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í fyrra, 20 milljónir króna, var til sveitarfélagsins Bláskógabyggðar til að halda mætti hönnunarsamkeppni um Geysissvæðið. Niðurstöður dómnefndar liggja nú fyrir.

Hlýir straumar náttúru og mannlífs

Fyrstu verðlaun hlaut tillaga Landmótunar „Geysir í Haukadal - hlýir straumar náttúru og mannlífs.“ Alls bárust 14 tillögur og var mikill einhugur hjá dómnefndinni um vinningstillöguna.

Uppfylli kröfur um heimsókir fjölda ferðamanna

Tillagan lítur heildstætt á hverasvæðið umhverfis Geysi. Leiðir umferð gesta um svæðið svo að þeir fái notið heimsóknarinnar og upplifi einstakt náttúrufyrirbæri á heimsvísu. Hún miðar að því að uppfylla kröfur þess mikla fjölda ferðamanna sem heimsækir staðinn, með bættu stígakerfi og áningarstöðum eykst öryggi gesta og tryggir náttúrulega framvindu hverasvæðisins.

Grunnmynd af Geyissvæðinu

Grunnmynd af svæðinu

Nýtt stígakerfi

Inngangar á hverasvæðið verða tveir, núverandi inngangur og nýr hjá fyrirhuguðum rútustæðum. Með flutningi á þjóðveginum suður fyrir þjónustukjarnan, skapast pláss fyrir fleiri bílastæði og rútur. Með því felst beinni og öruggari tenging milli þjónustusvæðins og hverasvæðisins, betri og skilvirkari aðkoma að svæðinu og aðskilnaður gangandi gesta og umferðar. Nýtt stígakerfið stuðlar að því að vernda svæðið kringum Geysi svo kísilskán í frárennsli hans geti byggst upp að nýju.

Göngustígar við Geysi

Svífandi timburstígar og steyptur stígur með hitalögn

Nýtt stígakerfi verður um Þykkvuhverasvæðið með svífandi timburstígum sem gefur gestum kost á að upplifa svæðið, þar sem má finna fjölbreyttar gerðir hvera, á annan hátt en áður. Aðalstígur svæðisins liggur þar sem núverandi stígur er og verður mjög breiður með stórum útskotum á stuttu millibili til að taka við fjölda gesta. Hann verður steyptur með hitalögn til að tryggja aðgengi allra allt árið.

Nánar:
Niðurstöður dómnefndar og yfirlit um tillögur