Fara í efni

Upplýsingasíða um vinnu við ferðaþjónustustefnu til 2030

Sjö starfshópar vinna nú tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustustefnu til 2030. Í frétt á vef menningar- og viðskiptaráðuneytis kemur fram að ný upplýsingasíða er nú aðgengileg á vef ráðuneytisins þar sem hægt er að kynna sér starf hópanna og koma ábendingum á framfæri.

Undir hverjum hópi má finna lista yfir þá sem sitja í hópunum, tímaáætlun og helstu verkefni.

Hóparir skila drögum að aðgerðum fyrir 15. október 2023. Þær tillögur fara í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Þá er fyrirhugað að halda opna umræðu- og kynningarfundir um vinnuna í öllum landshlutum í október og nóvember.
Mynd: Íslandsstofa
„Ferðaþjónustan er stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins. Við eigum að skapa henni trausta umgjörð og hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti í sátt við samfélagið. Það er mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra að borðinu og endurspeglast það meðal annars í skipan starfshópanna. Nú köllum við jafnframt eftir ábendingum og hugmyndum frá almenningi sem munu gagnast hópunum í þessari vinnu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra.

Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Hóparnir skila lokatillögum til stýrihóps fyrir 15. desember 2023 sem samræmir aðgerðir í heildstæða aðgerðaáætlun og skilar til ráðherra. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024.