Fara í efni

Upplifun erlendra ferðamanna á nokkrum vinsælum ferðamannastöðum

upplifunarkonnun1
upplifunarkonnun1

Í sumar lét Ferðamálastofa gera könnun á upplifun erlendra ferðamanna á nokkrum vinsælum ferðamannastöðum á landinu. Könnunin var unnin af fyrirtækinu Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RRF) og liggja niðurstöður nú fyrir.

Staðirnir sem um ræðir eru Landmannalaugar, Þingvellir, Geysir, Skógafoss, Reykjanesviti og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Í heild má að segja að upplifun gesta af þessum stöðum hafi verið jákvæð þótt nokkur munur sé á milli þeirra. Könnunin var gerð í Leifsstöð í ágúst og september og er í hluti af stærri könnun (Dear Visitors) sem RRF hefur gert reglulega. Spurt var um heildarupplifun ferðamanna af áðurnefndum sex stöðum og þeir beðnir um að gefa henni einkunn á bilinu 1-10. Alls fengust 648 gild svör við könnuninni á þessu tveggja mánaða tímabili, þar af 403 svör í ágúst og 245 svör í september. Gestir í september gáfu stöðunum í öllum tilvikum heldur hærri einkunn upplifunar en gestir í ágúst og konur almennt heldur hærri einkunn en karlar.

Heildarupplifun af stöðunum
Ekki munaði miklu á upplifunareinkunn staðanna, en Landmannalaugar og Snæfellsjökull skoruðu þó hæst, þá Skógafoss, en Þingvellir og Geysir fylgdu þétt í kjölfarið. Reykjanesviti rak lestina.

Svo sem sjá má gáfu septembergestir upplifun sinni af stöðunum í öllum tilvikum nokkru eða talsvert hærri einkunn en ágústgestir. Ekki er gott að segja hvað veldur. Vera kann að þar spili inn í að þá eru færri aðrir ferðamenn á stöðunum og minni neikvæð áhrif en þegar fjöldinn er meiri. Áhugavert væri að kanna þetta nánar.

Á næstu mynd eru einkunnirnar sem þátttakendur gáfu flokkaðar sem hér greinir:

9-10 = frábær upplifun
7-8 = góð
5-6 = sæmilegt
1-4 = slök

Niðurstaðan var sú að 64% gesta töldu reynsluna af Landmannalaugum vera frábæra, 56% töldu svo vera með Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og 53% varðandi Skógafoss. Þá gáfu 46% Geysi frábæra dóma og 42% Þingvöllum. Hins vegar töldu einungis 21% að upplifunin af Reykjanesvita hefði verið frábær. Stór hluti (25-49%) taldi síðan upplifunina af stöðunum vera góða (einkunn 7 eða 8) en 5-23% kváðu hana sæmilega, síst gestir að Þjóðgarðinum Snæfellsjökli en helst ferðamenn að Reykjanesvita. Enginn taldi upplifunina af Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, Þingvöllum eða Land-mannalaugum vera slaka, einungis 1-2% gesta að Skógafossi og Geysi en 12% gesta að Reykjanes-vita.

Hlutfall gesta á staðina
Flestir þeirra sem tóku þátt í könnuninni höfðu komið að Geysi í Íslandsferðinni en síðan að Þingvöllum og Skógafossi. Það var síðan býsna misjafnt hve stór hluti gesta frá mismundandi markaðssvæðum heimsóttu staðina.

Niðurstöður könnunarinnar í heild má nálgast hér:

Erlendir ferðamenn 2012 - heildarupplifun af 6 stöðum (PDF 1,3 MB)