Fara í efni

Unnið að samþættu kerfi upplýsingaveitu

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Ferðamálastofa vinnur nú að endurskoðun upplýsingaveitu til ferðamanna í samvinnu við markaðsstofur landshlutana og Safetravel, nefnt kjarnaveitur. Meginmarkmiðið er að koma á fót samþættu kerfi upplýsingaveitu til ferðamanna byggðu á hæfni og gæðum, þar sem öryggisupplýsingar eru alltaf í forgrunni. Verkefnið hófst síðla árs 2015 og er ætlunin að nýtt kerfi taki til starfa árið 2019. 

Hæfni og þjálfun ein af meginstoðunum

Í nýju kerfi eru hæfni og þjálfun starfsfólks ein af meginstoðunum. Gert ráð fyrir að kjarnaveitur auk Safetravel haldi utan um fræðslu- og gæðamál upplýsingaveitu í landshlutunum sem færa mun framkvæmdina meira út á svæðin sjálf og því nær greininni. Eins og áður sagði gegna markaðsstofur landshlutanna og Safetravel hlutverki kjarnaveita.

Hæfnigreining

Í ár mun Hæfnisetur ferðaþjónustunnar gera hæfnigreiningu á störfum í upplýsingaveitu og verður það í fyrsta sinn sem slíkt hefur verið gert hér á landi. Kjarnaveitur munu svo útbúa fræðsluáætlun byggða á hæfnigreiningunni auk þess að gera gæðahandbók fyrir upplýsingaveitu.

Ekki námskeið í ár

Vegna þeirrar umfangsmiklu vinnu sem nú er í gangi mun Ferðamálastofa ekki standa formlega fyrir námskeiði fyrir starfsfólk í upplýsingaveitu í ár líkt og síðustu ár. Stofnunin vekur þó athygli á að mikið er til af efni frá síðustu árum sem finna má undir tenglunum hér fyrir neðan sem hvatt er til að upplýsingamiðstöðvar, gestastofur, stofnanir og fyrirtæki nýti sér. Vakin er athygli á að fræðslan er ekki einungis fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva heldur alla þá sem veita ferðamönnum upplýsingar s.s. á bílaleigum, hótelum, sundlaugum, bensínstöðvum og svo framvegis.

Ferðamálastofa hvetur upplýsingamiðstöðvar, stofnanir og ferðaþjónustuaðila alla til að fylgjast með þróun mála hér á vef Ferðamálastofu sem og hjá kjarnaveitu síns svæðis.