Fara í efni

Umsóknarfrestur vegna styrkja til úrbóta á ferðamannastöðum

Seyðisfjörður
Seyðisfjörður

Ferðamálastofa auglýsir styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2010. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni tengd sjálfbærri ferðaþjónustu fyrir alla sem hafa heildrænt skipulag og langtímamarkmið að leiðarljósi.

Íslensk náttúra er eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna. Stefna íslenskra stjórnvalda er að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest í anda sjálfbærni. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar íslenskrar náttúru.

Styrkir skiptast í tvo meginflokka:

1. STYRKIR TIL SMÆRRI VERKEFNA ER VARÐA ÚRBÆTUR Á FERÐAMANNASTÖÐUM:
Veittir verða styrkir til smærri verkefna til úrbóta í umhverfismálum. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur og er hann ætlaður fyrir efniskostnaði. Ekki er veittur styrkur vegna vinnuframlags. Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum lýkur.

Umsókn skal innihalda:
a) Kostnaðar- og framkvæmdaáætlun
b) Afrit af skipulagi svæðis og/eða skriflegt samþykki viðkomandi yfirvalda vegna verkefnisins
c) Teikningar af mannvirkjum, þar sem það á við, og/eða skriflegt samþykki byggingarfulltrúa
d) Skriflegt samþykki allra landeigenda og húsráðenda
Ekki kemur til greiðslu styrks fyrr en að undangengnum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega.

2. STYRKIR TIL UPPBYGGINGAR Á FJÖLSÓTTUM FERÐAMANNASTÖÐUM OG NÝJUM SVÆÐUM:
Veittir verða styrkir til úrbóta í umhverfismálum og uppbyggingar á nýjum svæðum fyrir ferðamenn. Styrkupphæð getur að hámarki orðið 50% af kostnaðaráætlun. Verkefni þar sem skipulag, fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi liggur fyrir njóta áfram forgangs en nú verður einnig hægt að sækja um styrki fyrir skipulags- eða hönnunarvinnu ásamt undirbúningsrannsóknum. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja verkefni sem hafa sjálfbærni og langtímamarkmið í umhverfismálum að leiðarljósi. Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir skipulag og hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.

Umsókn skal innihalda:
a. Kostnaðar- og framkvæmdaáætlun
b. Afrit af skipulagi svæðis og/eða skriflegt samþykki viðkomandi yfirvalda vegna verkefnisins
c. Teikningar af mannvirkjum, þegar það á við, og/eða skriflegt samþykki byggingarfulltrúa
d. Skriflegt samþykki allra landeigenda og húsráðenda

Vakin er athygli á að styrkþegi stjórnar framkvæmdum sjálfur og er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkjum er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum líkur. Ekki kemur til greiðslu styrks fyrr en að undangengnum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega.

Hverjir geta sótt um:
Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi á svæði, og mikilvægi aðgerðanna út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Einnig verður tekið tillit til þess hvort viðkomandi verkefni nýtur þegar fjárstuðnings opinberra aðila. Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum.

Umsóknarfrestur:
Umsóknarfrestur er til og með 8. janúar 2010. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar.

Meðfylgjandi gögn:
Með öllum umsóknum skal skila inn gögnum er sýna fram á mikilvægi framkvæmdarinnar sem og skriflegt samþykki hlutaðeigandi aðila s.s. landeigenda, sveitarfélags, og umhverfisyfirvalda ef með þarf.

Hvar ber að sækja um:
Umsóknir berist með rafrænum hætti á meðfylgjandi umsóknareyðublaði (sjá hér að neðan). Umsóknareyðublöð má einnig fá á skrifstofu stofnunarinnar að Strandgötu 29, 600 Akureyri.

Excel-eyðublað til útprentunar
Þeir sem vilja eiga útprent af umsókn sinni geta fyllt út meðfylgjandi Excel-eyðublað. Athugið að eftir sem áður er nauðsynlegt að fylla út rafrænu umsóknina hér að ofan.
Excel-eyðubað til útprentunar

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5510 eða á sveinn@icetourist.is