Fara í efni

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu afhent við Þrístapa

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri afhenti Pétri Arasyni, sveitarstjóra í Húnbyggð, verðlaunagripinn…
Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri afhenti Pétri Arasyni, sveitarstjóra í Húnbyggð, verðlaunagripinn.

Síðastliðinn föstudag var hátíðardagskrá við Þrístapa í Vatnsdal þar sem svæðið var formlega opnað sem ferðamannastaður eftir mikla uppbyggingu. Við það tækifæri voru sveitarfélaginu Húnabyggð afhent umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2024.

 

Sagan gerð aðgengileg ferðafólki

Þrístapar hafa verulegt menningarsögulegt gildi en þar fór sem kunnugt er fram síðasta aftaka á Íslandi þann 12. janúar 1830. Framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarin ár sem meðal annars hafa verið fjármagnaðar með styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Þrístapar hafa þannig verið gerðir aðgengilegir og öruggir fyrir ferðamenn til að upplifa og fræðast um söguna. Útbúnir hafa verið göngustígar, bílastæði og salerni og komið fyrir upplýsinga- og fræðsluskiltum. Minningarsteinn er á aftökustaðnum en höggstokkurinn og öxin eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands. Verkefnið var á höndum Húnavatnshrepps áður en sveitarfélögin sameinuðust í Húnabyggð.

 

Veit í 30. sinn

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem koma að ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri skipulagningu og framkvæmd. Tilkynnt var um valið á Þrístöpum sem verðlaunahafa ársins 2024 í lok síðasta árs en undanfarin 9 ár hafa verðlaunin verið veitt verkefnum sem styrkt eru úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Þrístapar eru 30. verðlaunahafinn frá upphafi.