Tvö ný í Vakann

Tvö fyrirtæki bættust við í Vakann á dögunum. Annars vegar Ensku húsin við Langá á Mýrum, sem er fyrsta gistiheimilið í Vakanum og hins vegar South Iceland Adventure, ungt ferðaþjónustufyrirtæki á Hvolsvelli.

Ensku húsin fyrst í stjörnuflokkun

Ensku húsin við Langá á Mýrum er fyrsti gististaðurinn á Vesturlandi sem tekinn er inn í gæðakerfið og jafnframt fyrsta gistiheimilið sem fær stjörnuflokkun, en Engu húsin eru fjögurra stjörnu gististaður.

Sama fjölskylda í hálfa öld
Ensku húsin er fyrirtæki sem hefur verið rekið af sömu fjölskyldu um rúmlega hálfrar aldar skeið, fyrst sem veiðihús við Langá en í seinni tíð sem gistiheimili. Nú eru 20 herbergi í tveimur fallegum húsum sem voru byggð fyrir aldamótin 1900. Gistireksturinn er allt árið um kring en auk þess hafa Ensku húsin opinn veitingastað yfir sumartímann. Húsið Lambalækur er einnig undir hatti Ensku húsanna. Húsið sjálft stóð upphaflega uppi í Galtarholti sem íbúðarhús. Það var síðan flutt, endurgert og opnað sem gistihús árið 2004 af Ragnheiði Jóhannesdóttur og Stefáni Ólafssyni.

Vakinn skemmtilegt ferli
„Það er búið að vera skemmtilegt ferli að ganga í gæðakerfið Vakann. Það þurfa allir verkferlar að vera í lagi og allar áætlanir að standast og vera til staðar. Þetta er alls 300 atriða listi sem gengur til stiga. Við stóðum okkur greinilega mjög vel í þessu og komumst í fjögurra stjörnu gistiheimili án þess að þurfa að gera gagngerar breytingar hvorki varðandi rekstur eða húsnæði,” segir Anna Dröfn Sigurjónsdóttir. Hún og maður hennar Hjörleifur Stefánsson reka Ensku húsin í dag. Anna Dröfn segir að þau leitist við að ráða til sín starfsfólk af svæðinu. „Við höfum verið mjög heppin og ánægð með okkar fólk. Þetta er frábært teymi. Þau hafa staðið sig vel að ná þessum áfanga með okkur og við erum þakklát fyrir þeirra framlag. Við teljum þetta fjöður í hattinn fyrir okkur öll.”

Ensku húsin
Anna Dröfn Sigurjónsdóttir og Hjörleifur Stefánsson reka Ensku húsin.

South Iceland Adventure

South Iceland Adventure (SIADV) er ungt ferðaþjónustufyrirtæki á Hvolsvelli þar sem starfa að mestu vinir og fjölskylda. Eigendur eru þrír ungir menn sem hafa allir sterka tengingu við svæðið. Fyrirtækið er bæði ferðaskipuleggjandi og ferðaskrifstofa.

Upplifun með persónulegri þjónustu
Markmið SIADV er að skapa upplifun fyrir ferðamanninn með persónulegri þjónustu, staðbundinni þekkingu, ævintýraljóma og öryggi. Sérstök áhersla hefur verið á Suðurlandið og hálendi Íslands.

Helga Lucie Káradóttir, öryggisfulltrúi og leiðsögumaður stóð fyrir umsóknarferlinu hjá SIADV og tók á móti VAKANUM fyrir hönd fyrirtækisins. Dagný H. Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, afhenti viðurkenninguna fyrir hönd Vakans og Ferðamálastofu. Þá kom sveitarstjórn Rangárþings eystra ásamt sveitarstjóra, Ísólfi Gylfa Pámassyni, færandi hendi með blómvönd og viðurkenningu frá sveitarfélaginu í tilefni dagsins.

South Iceland Adventure
Á meðfylgjandi mynd eru Sigurður Bjarni Sveinsson stofnandi og eigandi SIADV, Dagný H.Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra, Helga Luicie Káradóttir öryggisfulltrúi og leiðsögumaður SIADV, Björg Árnadóttir framkvæmdastjóri SIADV ásamt starfsfólki.

 


Athugasemdir