Fara í efni

Tveir öflugir liðmenn til Ferðamálastofu

Starfsemi Ferðamálastofu heldur áfram að eflast með auknum verkefnum og tveir nýir starfsmenn bættust á dögunum í hópinn. Jóhann Viðar Ívarsson sem greinandi á rannsókna- og tölfræðisviði og Jón Bragi Gunnarsson sem sérfræðingur í leyfismálum á stjórnsýslu- og umhverfissviði. 

Jón Bragi hefur lokið kandídatsprófi í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað hjá Reykjavíkurborg, Skýrr og Ax hugbúnaðarhúsi sem ráðgjafi í fjárhagsupplýsingakerfum.  Síðustu ár hefur Jón Bragi unnið sem hagsýslustjóri hjá Akureyrabæ við fjárhagsáætlunargerð bæjarins.

Hjá Ferðamálastofu mun Jón Bragi sinna verkefnum er lúta að leyfismálum, svo sem útgáfu leyfa, árlegum skilum aðila með ferðaskrifstofuleyfi og eftirliti með leyfisskyldri starfsemi.

Jóhann Viðar hefur lokið BA prófi í stjórnmálafræði og hagfræði frá Háskóla Íslands, framhaldsnámi í hagfræði frá London School of Economics og meistaraprófi í viðskiptum og stjórnun frá Warwick Business School. Hann hefur á liðnum árum starfað innan fjármálageirans, sinnt kennslu á háskólastigi, rekið eigið ráðgjafarfyrirtæki o.fl. Síðustu ár hefur Jóhann Viðar unnið við greiningu og viðskiptaþróun hjá IFS Ráðgjöf.

Verkefni Jóhanns Viðars hjá Ferðamálastofu munu m.a. snúa að hagrænni og fjárhagslegri greiningu ferðamennsku sem atvinnugrein á Íslandi, samanburði við greinina í öðrum löndum, spá um þróun hennar og miðlun þekkingar og upplýsinga.

Starfsfólk Ferðamálastofu býður Jón Braga og Jóhann Viðar velkomna í hópinn.