Fara í efni

Tilkynnt um úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Hér sést hvernig gert er ráð fyrir að aðkoma verði í Staðarbjargavík við Hofsós að loknum framkvæmdu…
Hér sést hvernig gert er ráð fyrir að aðkoma verði í Staðarbjargavík við Hofsós að loknum framkvæmdum.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra úthlutaði í dag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2025. Að þessu sinni hljóta 28 verkefni styrk úr sjóðnum. Heildarúthlutun er 553,2 milljónir króna og dreifast verkefnin um land allt.

 

26 af 28 verkefnum skilgreind á áfangastaðaáætlunum

Að venju snúa verkefnin að fjölbreyttri uppbyggingu, m.a. á sviði öryggismála, náttúruverndar, innviðauppbyggingar o.fl. Af þeim verkefnum sem fá styrk að þessu sinni eru 26 af 28 verkefnum skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis sem eru unnar heima í héraði á forsendum heimafólks.

 

Áhersla á minna sótt svæði og lengingu ferðatímabils.

Í úthlutuninni að þessu sinni var lögð áhersla á minna sótt svæði og lengingu ferðatímabils. Gæðamat sjóðsins tók mið af þessari áherslu. Af þeim 28 verkefnum sem hlutu styrk eru 10 á Austurlandi og 4 á Vestfjörðum en fæstir erlendir ferðamenn gista á þessum landssvæðum.

 

Hæstu styrkirnir

Hæsti styrkurinn í ár er að upphæð tæpar 90 milljónir og fer til áframhaldandi uppbyggingar við Stuðlagil á Austurlandi. Markmið verkefnisins eru áframhaldandi náttúruvernd og bætt öryggi ferðamanna sem heimsækja Stuðlagil Grundarmegin, þar um er að ræða fjölsóttasta áfangastað ferðamanna á Austurlandi.

Næsthæsti styrkurinn, rúmar 60 milljónir króna, fer til uppbyggingar við Staðarbjargavík í Skagafirði. Markmið verkefnisins er að bæta aðgengi ferðamanna að mikilli náttúrufegurð og jarðmyndunum

 

Gegnir stóru hlutverki í uppbyggingu


„Framkvæmdasjóður ferðamannastaða gegnir stóru hlutverki í uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, í frétt á vef ráðuneytisins. „Það er ánægjuefni að geta stutt svo mörg verðug og spennandi verkefni sem styrkja þessa mikilvægu atvinnugrein.“

 

Umsóknir námnu  2,2 milljörðum

Alls bárust 96 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmlega 2,2 milljarða króna til verkefna að heildarfjárhæð rúmlega 3 milljarða króna. Af innsendum umsóknum voru 35 ekki taldar uppfylla formkröfur sjóðsins eða falla utan verksviðs hans.

Markmið sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða, stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.

 

Yfirlit um styrki