Fara í efni

Þúsund manna frístundaþorp á Hellnum

Framkvæmdir eru hafnar við þúsund manna frístundaþorp á Hellnum á Snæfellsnesi. Verður það reist í samvinnu Íslendinga og Norðmanna. Mbl.is greinir frá þessu í dag.

Þorpið mun heita á Plássið undir Jökli, líkt og gamla fiskiþorpið þar hét forðum daga þegar útræði var stundað frá Hellnum. Fyrir framkvæmdum stendur einkahlutafélagið Hellisvellir sem keypti um 30 hektara spildu undir þorpið fyrir ofan kirkjuna og Menningarmiðstöðina á Hellnum í landi Brekkubæjar. Ráðgert er að reisa allt að 200 íbúðarhús auk verslana, lista- og handverksgallería, hótels o.fl. Húsunum, sem öll verða flutt inn frá Noregi, svipar til svokallaðra katalóghúsa sem Íslendingar fluttu inn til Íslands frá Noregi á 19. öld og enn setja svip á ýmsa kaupstaði landsins. Húsin sem hönnuð eru í níu grunngerðum, frá 50 fermetrar upp í 150 fermetra og eru flest hæð og ris. Þau verða ýmist seld eða leigð.

Hellisvellir ehf.er í eigu Þorsteins Jónssonar og Jörn Wagenius. Þeir reistu Menningarmiðstöðina á Hellnum fyrir tveimur árum og er stækkun hennar fyrirhuguð í vor í tengslum við þorpið. Jörn er byggingarverktaki frá Bergen í Noregi og hefur samkvæmt frétt Morgunblaðsins meðal annars byggt upp frístundaþorp í Noregi.