Fara í efni

Þróunarverkefni um endurskoðun upplýsingaveitu til ferðamanna

UpplýsingamiðstöðvarÍ desember síðastliðinn ýtti Ferðamálastofa úr vör þróunarverkefni um endurskoðun opinberrar upplýsingaveitu til ferðamanna á landsvísu. Undir hana fellur sú upplýsingaveita sem rekin er að hluta eða heild af opinberum aðilum.

Markmið verkefnisins eru að:

  • Tryggja að bestu og nákvæmustu upplýsingar hvað varðar öryggi ferðamanna séu þeim alltaf aðgengilegar allt árið um kring um allt land
  • Tryggja gæðastarf upplýsingaveitu á landsvísu
  • Finna nýjar tæknilausnir sem styðja við upplýsingaveitu, bæði utan og innan eiginlegra upplýsingamiðstöðva
  • Nýta og styðja við það stoðkerfi gestastofa, safna og annarra opinberra eininga sem fyrir er um allt land
  • Nýta það fjármagn sem málaflokkurinn fær á sem hagkvæmastan en jafnframt árangurríkastan hátt

Kynningarfundir um allt land

Í febrúar og mars voru haldnir 13 kynningar- og umræðufundir um land allt þar sem verkefnið var kynnt ásamt því að möguleikar og áskoranir hvers svæðis á sviði upplýsingaveitu voru ræddar. Í kjölfar fundanna verða sjö vinnuhópar starfandi út um landið í apríl og maí sem skila munu tillögum til Ferðamálastofu að nýju/endurskoðuðu fyrirkomulagi upplýsingaveitu á hverju landsvæði. Úr þeim tillögum mun Ferðamálastofa svo vinna samræmda tillögu til fjárlagagerðar fyrir árið 2017.

Samræming og aukin gæði

„Megináherslur í nýju kerfi verða upplýsingar tengdar öryggi ferðamanna á öllum tímum árs um allt land, þ.e. hvernig hægt sé að koma öryggisupplýsingum á framfæri á markvissan hátt sem víðast. Einnig er mikil áhersla lögð á gæði og fagmennsku, t.d. með þjálfun starfsfólks og gerð samræmdra vinnuferla sem tryggja upplýsingaflæði inn á svæðin, innan svæða og á milli svæða, “ segir Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, verkefnisstjóri svæðisbundinnar þróunar hjá Ferðamálastofu. „Einn verkþáttur verkefnisins er að kostnaðargreina málaflokkinn, en það hefur aldrei verið gert áður og reyndist talsverst flókið þar sem upplýsingaveita er oft rekin með annarri starfsemi sveitarfélaga og ríkis.“

Hrafnhildur segist bjarsýn á að nýtt og endurbætt kerfi upplýsingaveitu muni stuðla að markvissari og um leið faglegri upplýsingagjöf sem sé mikilvægur hluti af öryggismálum ferðamanna, en einnig gott verkfæri til að stýra betur straumi ferðamanna á milli svæða og innan svæða.