Fara í efni

Þörfin fyrir rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu - morgunverðarfundur

Mynd: arctic-images.com
Mynd: arctic-images.com

Ferðamálastofa boðar til morgunverðarfundar á Grand Hótel Reykjavík 1. október kl. 8:30. Þar verða kynntar niðurstöður greiningar á þörfinni fyrir rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu.

Mikil umræða hefur verið síðustu misserin um mikilvægi rannsókna fyrir þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu og eftirspurn er mikil eftir margs konar gögnum sem tengjast ferðaþjónustu á einn eða annan hátt. Þó svo margt gott hafi áunnist á síðustu árum er ljóst að verulega vantar upp á fjármuni til gagnasöfnunar og rannsókna á sviði ferðaþjónustu. Það hefur margoft komið fram í opinberri umræðu að greinin situr ekki við sama borð og aðrar helstu atvinnugreinar þjóðarinnar þegar kemur að opinberu framlagi til rannsókna og að úr því verði að bæta. Miklar áskoranir bíða þessarar ört vaxandi atvinnugreinar og góður grunnur til að mæta þeim þarf að byggja á faglegum rannsóknum og greiningarvinnu. Niðurstöður úr þeirri greiningu sem hér hefur verið unnin eru mikilvægt innlegg í þá vinnu.

Byggt á mati hagsmunaaðila

Við mat á rannsóknarþörf ferðaþjónustunnar var farin sú leið að vinna út frá hugmyndum hagsmunaaðilanna sjálfra, en þær voru greindar á fjölsóttum vinnufundi, þar sem rannsóknaþörfin var rædd út frá átta efnisþáttum. Verkefnum var síðan forgangsraðað á vinnufundi með nokkrum völdum hagmunaaðilum. Það kom síðan í hlut starfsmanns Ferðamálastofu og ráðgjafa frá KPMG að útfæra og kostnaðargreina hvert og eitt rannsóknarefni.

Rannsóknum raðað í mikilvægisröð

Í skýrslu sem kynnt verður á fundinum hefur verkefnum verið raðað eftir mikilvægi og þau kostnaðargreind. Fjórir aðilar munu fjalla um þau verkefni sem talin eru brýnust.

  • Skráning á fundinn (skráningarfrestur útrunninn)

Dagskrá:

Inngangur - Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri

Kynning á skýrslu - Kristján Ólafsson KPMG og Oddný þóra Óladóttir Ferðamálastofa

Fyrirlestrar um mikilvægustu rannsóknarverkefnin
  -Böðvar Þórisson, Hagstofa Íslands
  -Daði Guðjónsson, Íslandsstofa
  -Anna Dóra Sæþórsdóttir, Háskóli Íslands
  -Oddný Þóra Óladóttir, Ferðamálastofa

Fundarstjóri: Sævar Kristinsson, KPMG 

Sent út á netinu

Þeir sem eiga lengra að sækja geta fylgst með fundinum í beinni útsendingu á Netinu. Leiðbeiningar til að tengjast eru hér að neðan.

1. Uppsetning á nýjustu útgáfu Java:
Til að byrja með er nauðsynlegt að tryggja að tölvan sé með nýjustu útgáfu af Java forritinu (er á öllum tölvum en ekki víst að þið séuð með það nýjasta). Þannig að best er að byrja á að fara inn á www.java.com, hlaða þar niður nýjustu útgáfu (áberandi hnappur á miðjum skjánum) og setja upp. Þetta getur tekið nokkrar mínútur.

2. Tengjast fundinum:
Til að tengjast fundinum er farið inn á þessa vefslóð sem verður virk skömmu áður en málþingið hefst:

https://fundur.thekking.is/startcenter/Join.xhtml?sinr=433930373&sipw=nv64

Athugið að samþykkja þau skilaboð sem upp koma en í flestum tilfellum kemur tvívegis upp gluggi þar sem smellt er á "Run". Eftir það á fundur að hefjast.