Fara í efni

Þórbergssetur hlaut nýsköpunarverðlaun SAF

Nysköpunarverðlaun saf 2008
Nysköpunarverðlaun saf 2008

Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar voru afhent í fimmta sinn í tengslum við afmælisfund samtakanna í gær. Menningarsetrið Þórbergssetur á Hala í Suðursveit hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir öfluga uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Þórbergssetur sé einstaklega vandað framtak fólks úr héraði við uppbygginu menningartengdrar ferðaþjónustu. Setrið er ekki aðeins safn tileinkað einum af merkari rithöfundum þjóðarinnar. Það er einnig lifandi sögusýning á atvinnuháttum og menningu Suðursveitunga gegnum aldirnar og hvernig þeir hafa hagað sinni búsetu í nábýli við óblíða náttúru. Með því að tvinna saman líf og störf rithöfundarins við menningarsögu sveitarinnar, veitist gestum ný sýn á ritverk hans, en einnig ný sýn á líf og störf Íslendinga um aldir gegnum þau sömu ritverk.

Setrið er einnig ákaflega vel úr garði gert, hönnun þess frumlegt og vel vandað til allrar umgjörðar. Gestir fá góðar móttökur og er öll grunnþjónusta fyrir hendi á staðnum.

Þannig er ljóst að Þórbergssetur hefur frá því að vera góð hugmynd, náð því að verða virkt og skapandi afl í Suðursveit sem eflir orðstír og framleiðni ferðaþjónustu og er þannig vel að nýsköpunarverðlaunum komið.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Stjórn sjóðsins skipa: Árni Gunnarsson, formaður SAF, sem er formaður dómnefndar en honum til ráðgjafar voru dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Hörður Erlingsson hjá Erlingsson - Naturreisen.

Mynd: Frá vinstri Fjönir Torfason og Þorbjörg Arnórsdóttur , framkvæmdastjóri Þórbergsseturs ásamt Árna Gunnarssyni formanni SAF.

www.thorbergur.is