Fara í efni

Þóra Helgadóttir Frost nýr formaður Ráðgefandi nefndar um rannsóknir og gagnaöflun í ferðaþjónustu

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri hefur tilnefnt Þóru Helgadóttur Frost sem nýjan formann Ráðgefandi nefndar um rannsóknir og gagnaöflun í ferðaþjónustu.

Kveðið er á um starf nefndarinnar í reglugerð um gagnaöflun og rannsóknir á sviði ferðamála og kemur hún að mótun Áætlunar um rannsóknir og gagnaöflun í ferðaþjónustu sem Ferðamálastofa vinnur árlega og tekur til þriggja ára í senn.

Fráfarandi formaður, Ragnar Árnason, hefur gegnt hlutverki formanns ráðgefandi nefndar síðan 2020 með miklum ágætum og honum er þakkað kærlega fyrir vel unnin störf.

Sjálfbærar fjárfestingar og fjármál

Þóra er hagfræðingur, er nú í doktorsnámi við King’s Business School og starfar innan Miðstöðvar fyrir sjálfbær viðskipti (Centre for Sustainable Business, CSB). Rannsóknir hennar beinast að sjálfbærum fjárfestingum, með sérstakri áherslu á áhrif sjálfbærnimerkinga á fjárfestingarsjóði til að draga úr grænþvotti og efla fjárfestingar.

Áður en hún hóf doktorsnám starfaði Þóra í yfir 5 ár sem ráðgjafi á sviði sjálfbærra fjármála hjá fyrirtækjum eins og BCG og Carbon Trust. Þar veitti hún stefnumótandi ráðgjöf til leiðandi fjármálastofnana, þróunarstofnana og ríkisstjórna tengt sjálfbærum fjármálum.

Unnið bæði í opinbera- og einkageiranum

Áður en Þóra lagði áherslu á sjálfbær fjármál spann ferill hennar yfir 15 ár og nær yfir bæði opinbera- og einkageirann. Eftir að hafa lokið MSc-gráðu í hagfræði frá UCL starfaði hún hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, þar sem hún vann við rannsóknir og kenndi sem stundakennari. Hún gengdi síðan fjölbreyttum störfum í fjármálageiranum, bæði á Íslandi og í London, og starfaði meðal annars hjá Kaupþing og GAMMA.

Hjá hinu opinbera í Bretlandi starfaði Þóra sem ríkishagfræðingur, þar sem hún leiddi þjóðhagsspár, stefnumótun og rannsóknarverkefni hjá Fjármálaráðuneytinu (HM Treasury) og Fjármálaráði (Office for Budget Responsibility). Árið 2016 var hún skipuð af Alþingi í Fjármálaráð, en ráðið leggur mat á fjármálaáætlun og fjármálastefnu ríkistjórnar.