Fara í efni

Talningu erlendra ferðamanna hætt 1. september?

KaffiParis2
KaffiParis2

Þegar Útlendingaeftirlitið hætti talningu erlendra ferðamanna eftir þjóðerni var það samdóma álit aðila í ferðaþjónustu að þessi talning mætti ekki falla niður þar sem hún væri greininni mikilvæg ekki síst vegna markaðsmála. Því samþykkti þáverandi Ferðamálaráð árið 2002 að stofnunin skyldi með einhverum hætti tryggja umrædda talningu áfram.

Fjárfest í tölvubúnaði og hannaður hugbúnaður til að framkvæmda umrædda talningu í Leifsstöð. Samið var við embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli og hafa starfsmenn embættisins síðan annast þessa talningu með því að ýta á snertiskjái við brottför farþega.

Embættið hefur nú um nokkurt skeið þrýst á verulegar hækkanir fyrir umrædda þjónustu. Viðræður hafa staðið yfir í nokkra mánuði. Ferðamálastofa telur sér ekki fært að greiða þá upphæð sem krafist er nú. Um er að ræða meir en 10% af heildarfjárveitingum til reksturs stofunarinnar á Íslandi. Ekki er talið réttlætanlegt né mögulegt að draga úr annarri þjónustu stofnunarinnar sem þessu nemur til að greiða fyrir umræddar tölur.

Þar sem viðræður aðila hafa ekki skilað niðurstöðu þá hefur embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli sagt upp umræddum samningi og mun að öllu óbreyttu hætta talningu erlendra ferðamanna eftir þjóðerni 1. september nk.