Fara í efni

Taktu þátt í að móta ferðamálastefnu Reykjavíkur

Reykjavík
Reykjavík

Reykjavíkurborg vinnur að nýrri ferðamálastefnu fyrir 2011 – 2020. Um það bil 300 manns úr ýmsum geirum þjóðfélagsins hafa nú þegar lagt vinnunni lið með hugmyndum sínum í ólíkum þemahópum og lagt drög að nýrri stefnu. Nú er kallað eftir hugmyndum almennings um hvernig  Reykjavík getur orðið að enn betri áfangastað fyrir ferðamenn á komandi áratug.

Þátttaka í að mótun ferðamálastefnu Reykjavíkur 2011 – 2020 er einstakt tækifæri fyrir borgarbúa og landsmenn alla til þess að koma með sínar hugmyndir og verða lýðræðislegur hluti af þróun ferðamannaborgarinnar Reykjavíkur í ört vaxandi atvinnugrein. Því hvetjum við alla til að taka þátt með því að fara inn á www.reykjavík.is og smella þar á viðeigandi vefborða.

Ljóst er að Reykjavík hefur mörg tromp í hendi sér þegar kemur að ferðaþjónustu. Hún er ein af þremur atvinnugreinum í landinu sem skilar hvað mestum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið og fjölmargir rekstraraðilar í borginni hafa verulegan ávæning af þjónustu við ferðamenn. Almenn bjartsýni er ríkjandi í greininni þar sem eldgosið í Eyjafjallajökli fyrra og Inspired by Iceland markaðsátakið er talið munu skila fleiri ferðamönnum til landsins nú í ár og á komandi árum en í fyrra. Borgarferðir hafa færst í vöxt á heimsvísu. Að auki hafa erlend stórblöð og ferðavefir svo sem eins og Lonely Planet, CNN Travel, New York Times Travel, SkyScanner.net og SmarterTravel. Com sett  Reykjavík og Ísland í topp 10 sætin yfir mest spennandi áfangastaðina að sækja heim.

Reykvísk menning, hönnun, græn svæði, aðstaða til heilsuræktar og fjölbreytt úrval afþreyingar í ferðaþjónustu gera borgina að heillandi áfangastað árið um kring. Borgarbúar og innlendir gestir geta ekki haldið uppi þeim fjölda veitingastaða, kaffihúsa og verslana sem gestum miðborgarinnar stendur til boða en með þeirri viðbót sem hlýst af 500 þúsund erlendum gestum tekst rekstraraðilum í borginni að halda upp hærra þjónustustigi en ella. Því er það allra akkur að hlúa vel að ferðaþjónustu framtíðarinnar.

Mikilvægt er að rödd allra hagsmunaaðila í ferðaþjónustu sem og almennings fái að heyrast meðan á þessari vinnu stendur og að þau tækifæri sem búa í borginni og íbúum hennar verði skoðuð og nýtt eftir megni.

Nánari upplýsingar veitir Einar Örn Benediktsson, formaður menningar og ferðamálasviðs í síma 660 6514 og Sif Gunnarsdóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu í síma 693 9361.