Fara í efni

Tákn alls sem þið viljið vera þekkt fyrir

bíll án hjólsFerðamálastofu berast eðlilega margir tölvupóstar frá erlendum ferðamönnum þar sem erindin eru af ýmsu tagi. Nú í aðdraganda jóla datt okkur í hug að deila með ykkur þessari fallegu sögu sem okkur barst um sannan náungakærleik og hjálpsemi. Já, allt er gott sem endar vel.

"Nýlega var ég ásamt vinahópi stödd í fallega landinu ykkar og langar að deila með ykkur reynslu okkar.

Þetta var í mars síðastliðnum og við keyrðum í austur um 4 klukkutíma frá Reykjavík og vorum á leið að skoða jökul þegar eitt hjólið datt undan bílnum. Við urðum nokkuð skelkuð en að öðru leyti var allt í lagi með alla. Hinsvegar virkuðu engir símar sem við vorum með og við vorum langt frá nokkurri hjálp.

Þá birtust Kristín og Einar. Þau höfðu keyrt á eftir okkur og stoppuðu til að aðstoða. Þau hringdu í bílaleiguna, fullvissuðu hana um að við hefðum ekki verið að keyra á nokkurn hátt glannalega, og voru ströng í tóninum þegar þau sögðu bílaleigunni á íslensku að hún þyrfti að láta okkur hafa nýja bíl. Síðan tóku þau okkur upp í sína bíla (voru á tveimur þar sem þau voru með börnin sín með sér) og keyrðu okkur til baka 45 mínútur að næstu bensínstöð þar sem við biðum í 4 tíma eftir að bílaleigan kæmi með nýjan bíl.

Þetta fólk eyddi töluverðu af sínum tíma þennan dag, bauð okkur upp í bíla sína þar sem við sátum með börnunum þeirra, allt til að hjálpa ókunnugu fólki. Vegna þeirra varð það sem hefði getað orðið hræðileg staða að óþægindum. Þau eru tákngerfingur ALLS sem þið mynduð vilja að umheimurinn þekkti við landið ykkar. Þegar við lítum til baka á ferðalagið, og á sama tíma skipuleggjum aðra ferð, þá er það góðvild þeirra sem stendur uppúr. Ég vildi að ég hefði náð eftirnafninu þeirra en við náðum bara fornafni og símanúmeri. Ég veit ekki hvort þú hefur einhver ráð með að hafa samband við þau og veita þeim einhverja viðurkenningu, en þau eru bjart andlit þjóðar ykkar, skínandi dæmi um þau gildi sem þið búið yfir og vert er að sýna umheiminum.

Við yrðum mjög þakklát ef þið gætuð þakkað þeim fyrir okkur en okkur langaði að þið vissuð hve dásamleg þau voru við hjálparlausan hóp ferðamanna.

Einlæglega,
Kate, Dan, Dan og Ali."

Vart þarf að geta þess að Ferðamálastofa kom skilaboðum ferðalanganna áfram til réttra viðtakenda.