Fara í efni

Tæpir tveir mánuðir í Vestnorden

Um 80 íslensk fyrirtæki eru skráð til þátttöku á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin verður í Kaupmannahöfn 13.-14. september í haust. Verða Íslendingar fjölmennastir eins og jafnan áður.

Ferðamálaráð Íslands, Færeyja og Grænlands tóku fyrir 20 árum höndum saman um að halda sameiginlega ferðakaupstefnu. Sú fyrsta var haldin árið 1985 og Vestnorden í Kaupmannahöfn í haust verður sú 20. í röðinni. Löndin skipast á um að halda kaupstefnuna og hefur hún 10 sinnum verið haldin hér á landi, 5 sinnum í Færeyjum og nú eru Grænlendingar gestgjafar í fimmta sinn. Þetta er þó í fyrsta skipti sem Vestnorden er haldin utan landanna þriggja en ákvörðun um Kaupmannahöfn í stað Grænlands miðar að því að draga úr kostnaði fyrir þátttakendur. Eftir sem áður verða í boði skoðunarferðir til landanna þriggja í tengslum við kaupstefnuna.

Auk Íslands, Færeyja og Grænlands gerðust Hjaltlandseyjar nokkurs konar aukaaðili að Vestnorden fyrir þremur árum. Á kaupstefnunni hitta ferðaþjónustuaðilar frá löndunum fjórum, ferðaheildsala frá ýmsum löndum. Þarna er um að ræða fyrirtæki sem eru að selja, eða hafa hug á að selja, ferðir til vestnorrænu landanna. Ferðaheildsalarnir koma eins og jafnan áður víða að, m.a. frá Ástralíu, Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi.

Heimasíða Vestnorden 2005