Fara í efni

Tæpar fimm vikur í Vestnorden

Að þessu sinni eru 70 íslensk fyrirtæki skráð til þátttöku á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin verður í Þórshöfn í Færeyjum dagana 15.-17. september næstkomandi. Því eru aðeins tæpar 5 vikur til stefnu.

112 sýnendur
Vestnorden er árleg ferðakaupstefna sem Ferðamálaráð Íslands, Grænlands og Færeyja hafa staðið að síðastliðna tvo áratugi. Sýnendur á kaupsstefnunni koma frá vestnorrænu löndunum þremur auk þess sem fyrirtæki frá Danmörku og Settlandseyjum taka þátt. Samtals eru 112 fyrirtæki frá þessum löndum skráð sem sýnendur. Ferðamálaráð Íslands verður að sjálfsögðu með bás á kaupstefnunni.

Kaupendur koma víð að
Á Vestnorden hitta sýnendurnir ferðaheildsala hvaðanæva að úr heiminum sem eru að selja ferðir til norrænu landanna og eiga með þeim stutta fundi sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Flóran hjá kaupendunum eða ferðaheildsölunum er fjölbreytt en ríflega 90 kaupendur frá 19 löndum eru skráðir til leiks. Má þar nefna fyrirtæki frá Ástralíu, N.-Ameríku og Rússlandi en flest eru fyrirtækin þó frá nágrannaríkjum okkar í V.-Evrópu.