Fara í efni

Rekstur ferðaþjónustunnar á liðnu sumri og horfurnar framundan - Niðurstöður og kynning könnunar

Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Ferðaþjónustan hefur átt undir högg að sækja í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Þrátt fyrir að veiran hafi ennþá mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu er ljóst að ferðaþjónustan gekk betur síðastliðið sumar samanborið við sumarið 2020. Til að fylgjast með þróun greinarinnar fékk Ferðamálastofa Gallup til að gera í annað sinn ítarlega könnun meðal ferðaþjónustuaðila til að varpa skýrara ljósi á ferðasumarið 2021.

Könnunin er nokkurs konar stöðugreining á því hvernig rekstur ferðaþjónustunnar gekk í sumar í samanburði við fyrrasumar (2020) og sumarið 2019 (f. COVID-19) og því hvernig fyrirtækin meta horfurnar framundan. Könnunin kemur í framhaldi af sambærilegri könnun sem var framkvæmd fyrir ári síðan.

Hvernig gekk í sumar?

 • Um 81% ferðaþjónustufyrirtækja voru með svipaðan opnunartíma í sumar og sumarið 2019 (f.covid). Einungis um 3% voru með lokað í sumar.
 • Fyrirtæki gripu ekki til sértækra aðgerða í sumar til að laða að viðskiptavini í sama mæli og í fyrrasumar. Sérstök tilboð til að laða að Íslendinga eða aðgerðir til að laga vöru/þjónustu að þörfum þeirra var beitt í mun minna mæli en í fyrra.
 • Viðskiptin fóru fram úr væntingum hjá nærri tveimur af hverjum þremur fyrirtækjum. Í gistiþjónustu fóru viðskiptin fram úr væntingum átta af hverjum tíu fyrirtækja.
 • 80% fyrirtækja skiluðu EBITDA framlegð. Fimmtungur var með neikvæða framlegð. Hlutfallslega fleiri fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu (33%) voru með neikvæða framlegð en fyrirtæki á landsbyggðinni.
 • Þriðjungur veltu fyrirtækja var tilkomin vegna Íslendinga í sumar, mun lægra hlutfall en í fyrrasumar (2020) en þá var ríflega helmingur veltu tilkomin vegna Íslendinga.
 • Ríflega helmingur fyrirtækja átti í erfiðleikum með að ráða starfsfólk í sumar. Ástæðuna mátti fyrst og fremst rekja til þess að fólk vildi frekar vera á atvinnuleysisbótum en að þiggja vinnu í ferðaþjónustu.

Stuðningsaðgerðir stjórnvalda

 • Flest fyrirtæki höfðu nýtt sér stuðningsaðgerðir stjórnvalda og voru um sjö af hverjum tíu ánægð með þær. Aðgerðirnar hafa að mestu snúist um að nýta:
  • Hlutabótaleið (60%)
  • Tekjufallsstyrki (53%)
  • Viðspyrnustyrki (51%)
  • Ráðningarstyrki (50%)
  • Launakostnað á uppsagnarfresti (24%)

Horfurnar framundan

 • Um átta af hverjum tíu fyrirtækjum telja að eftirspurn eftir vöru og þjónustu meðal erlendra ferðamanna muni aukast á árinu 2022. Um helmingur telur að eftirspurn innlendra ferðamanna muni standa í stað og um fjórðungur að hún muni minnka.
 • Um sex af hverjum tíu fyrirtækjum telja sig vera í stakk búin að mæta skuldbindingum skammtímalána og langtímalána.
 • Níu af hverjum tíu fyrirtækjum telja líklegt að veltan verði komin í svipað horf í árslok 2023 og hún var fyrir COVID-19.
 • Ríflega helmingur fyrirtækja ætlar að vera með svipaðan opnunartíma í vetur (nóv.-mars) og fyrir COVID-19, þriðjungur ætlar að vera með einhvers konar skerðingu og ríflega eitt af hverjum tíu að vera með lokað.
 • Langflest fyrirtæki ætla að reyna að ná fyrri styrk eins fljótt og auðið er.

Um könnunina

Könnunin var framkvæmd sem netkönnun og símakönnun á tímabilinu 15. október til 22. nóvember og náði hún til íslenskra fyrirtækja í a) gistiþjónustu, b) veitingaþjónustu, c) afþreyingaferðaþjónustu og c) samgönguþjónustu fyrir ferðamenn. Úrtakið var fengið úr gagnagrunni Ferðamálastofu og náði til fyrirtækja sem falla í hóp þeirra sem voru með 75% mestu ársveltuna árið 2019.

Könnunin var send á forsvarsmenn 1.051 fyrirtækja. Endanlegt úrtak var 915 fyrirtæki og fengust svör frá 362 sem gerir 40% svarhlutfall. Niðurstöður voru greindar eftir tegund starfsemi, árlegri veltu, fjölda starfsmanna, því hversu lengi fyrirtækið hefur verið starfrækt og staðsetningu fyrirtækis. Eins og áður sagði sá Gallup um framkvæmd könnunarinnar fyrir Ferðamálastofu. Heildarniðurstöður má nálgast í meðfylgjandi skjali.

 

Skýrsla - sumarið 2021 og horfurnar framundan - Könnun meðal ferðaþjónustufyrirtækja 

 

Kynning Ferðamálastofu á verkefninu

Kynningu á verkefninu má nálgast í spilaranum hér að neðan: