Fara í efni

Styttist í opnun sameiginlegs Evrópuvefs

MagnusOddsson
MagnusOddsson

Eins og kom fram í frétt hér á vefnum fyrr í vikunni var aðalfundur Ferðamálaráðs Evrópu haldinn í Vín fyrri hluta vikunnar og þar samþykkt sérstök yfirlýsing um ferðamál. Magnús Oddsson ferðamálastjóri sat fundinn af hálfu Íslands ásamt ferðamálastjórum þeirra rúmlega þrjátíu landa sem eiga aðild að ráðinu.

Samkeppnishæfnin efst á baugi
Að þessu sinni stóð fundurinn í þrjá daga, sem er óvanalegt, en ástæða þess var að til hans var boðið fjölda sérfræðinga í ferðaþjónustu í Evrópu til að fjalla um stöðu og horfur í greininni. ?Mér þótti tvennt standa upp úr í þessari umræðu,? segir Magnús. ?Í fyrsta lagi hve allir eru uppteknir af umræðunni um samkeppnishæfni og þá í þessu tilliti samkeppnishæfni Evrópu. Þar sem allar spár gera ráð fyrir að umfang í ferðaþjónustu í heiminum muni tvöfaldast á næstu 15 árum og Evrópa hefur verið að tapa markaðshlutdeild þá er ekki óeðlilegt að þetta sé meginumræðuefnið þegar rætt er um stöðu og horfur. Gunther Verheugen, einn af framkvæmdastjórum EU, sagði að ljóst væri að Asía væri að fara fram úr Evrópu hvað varðaði gæði og því væri stærsta verkefni Evrópu í ferðamálum að bæta samkeppnishæfni í ljósi þess að við hefðum dregist aftur úr,? segir Magnús. En þess má geta hér að það er einmitt samkeppnishæfni sem verður meginumræðuefni ferðamálaráðstefnunnar sem hefst á fimmtudaginn í Reykjavík.

Metnaðarfullt verkefni
Hitt sem Magnúsi fannst standa upp úr frá aðalfundinum var umræðan um rafræna kynningu og markaðssetningu. ?Það er búið á okkar vegum að vinna í tvö ár að gerð sameiginlegs vefs Evrópu og hefur verkefnið kostað um 300 milljónir íslenskra króna. Þetta tæki til kynningar og markaðssetningar er mjög metnaðarfullt og gefur öllum aðildarþjóðunum mörg tækifæri sem nauðsynlegt er að nýta. Kerfið og möguleikar þess verða eðlilega kynnt nánar fyrir greininni á næstu mánuðum, en gert er ráð fyrir fyrstu opnun 15. janúar gagnvart Bandaríkjamarkaði,? segir Magnús.