Fara í efni

Strandagaldur hlaut Eyrarrósina 2007

Eyrarrósin 2007
Eyrarrósin 2007

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, var afhent á Bessastöðum fyrr í vikunni. Hún kom að þessu sinni í hlut Strandagaldurs, en þrjú verkefni voru tilnefnd..

Dorrit Moussaieff forsetafrú afhenti verðlaunin en hún er sérstakur verndari Eyrarrósarinnar. Þetta er í þriðja sinn sem Eyrarrósin er veitt. Markmiðið með Eyrarrósinni er að stuðla að auknu menningarlífi á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Viðurkenningin er fjárstyrkur að upphæð 1.5 milljón, verðlaunagripur eftir Steinunni Þórarinsdóttur auk flugmiða frá Flugfélagi Íslands.

Strandagaldur
Strandagaldur hefur m.a. að geyma Galdrasafnið á Hólmavík, Kotbýli kuklarans og Þjóðtrúarstofuna á Ströndum þar sem saman hefur verið dregin vitneskja um 17. öldina, þjóðsagnir, hugmyndaheim og menningararf Strandasýslu sem tengist göldrum. Í umsögn dómnefndar segir: ?Strandagaldur stendur að fjölbreyttum verkefnum og sýningum á sviði þjóðfræði og sýningarhalds og hefur frá upphafi vakið verðskuldaða athygli innanlands og utan. Sérstaða svæðisins er nýtt til að draga fram íslenska þjóðtrú og sögu og óhætt er að fullyrða að verkefnið á sér ekki hliðstæðu. Metnaður og fagþekking eru höfð að leiðarljósi. Starfsemin hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun og uppbyggingu atvinnulífs héraðsins sem aftur styrkir stoðir þess og dregur athygli ferðamanna að því. Rík þátttaka heimafólks í starfinu er til fyrirmyndar, segir í fréttatilkynningu.

Framkvæmdastjóri Strandagaldurs er Sigurður Atlason. Formaður stjórnar er Magnús Rafnsson sagnfræðingur Bakka í Bjarnarfirði, aðrir í stjórn eru Jón Jónsson þjóðfræðingur, Kirkjubóli í Steingrímsfirði, Matthías Lýðsson bóndi, Húsavík í Steingrímsfirði, Ólafur Ingimundarson húsasmíðameistari, Svanshóli í Bjarnarfirði, Magnús H. Magnússon veitingamaður, Hólmavík og Valgeir Benediktsson, bóndi Árnesi í Trékyllisvík.

Þrjú verkefni tilnefnd
Sem fyrr segir voru þrjú verkefni tilnefnd og auk Strandagaldurs voru það Safnasafnið á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð og Sumartónleikar í Skálholtskirkju. Hlutu þau 200 þúsund króna fjárstyrk hvort og flugmiða frá Flugfélagi Íslands.

Safnasafnið
Sérstaða Safnasafnsins í íslensku safna- og sýningarhaldi er óumdeild, en safnið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi.  Með metnaðarfullu starfi árum saman hefur tekist að skapa einstakan ramma utan um alþýðulist, nýrri list og handverk af ýmsu tagi. Sýningar safnsins hafa borið faglegum metnaði gott vitni og sérstök verkefni safnsins og sýningar stefna saman ýmsum listastefnum og tvinna saman starf hámenntaðra listamanna og áhugafólks. Frumkvæði einstaklinga í þessu einstaka safni er aðdáunarvert og einstakt.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju
Um langt árabil hafa Sumartónleikar í Skálholtskirkju verið ein glæsilegasta tónlistarhátíð landsins. Allt frá árinu 1975 hefur verið fluttur þar fjöldi innlendra og erlendra tónverka með fremstu flytjendum landsins. Erlendum þátttakendum og gestum Sumartónleikanna fjölgar ár frá ári og fjölbreytni og umfang að sama skapi. Mörg ný verk hafa verið frumflutt á hátíðinni sem og áður óþekkt eldri verk. Hátíðin hefur skapað sér sess sem elsta og jafnframt stærsta sumartónlistarhátíð landsins og er sérstaklega aðdáunarvert að aðgangur að tónleikum í Skálholtskirkju er ókeypis.

Nýr samningur undirritaður
Fyrir rúmu ári féllu verðlaunin í skaut LungA ?listahátíðar ungs fólks, Austurlandi en árið 2005 hlaut Þjóðlagahátíðin á Siglufirði Eyrarrósina. Eyrarrósin á rætur sínar í því að árið 2004 gerðu Listahátíð í Reykjavík, Byggðarstofnun og Flugfélag Íslands með sér samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni til þriggja ára í tilraunaskyni. Afar vel hefur tekist til og því hefur verið ákveðið endurnýja samstarfið. Var nýr samningur um samstarfið undirritaður á Bessastöðum.