Fara í efni

Sterk staða Íslands í Bandaríkjunum

Tekjukönnun SAF fyrir mars
Tekjukönnun SAF fyrir mars

Ísland virðist vera einn af heitastu áfangastöðum fyrir Bandaríkjamenn um þessar mundir og mikið spurt eftir ferðum til landsins. Þetta endurspeglast meðal annars í umfjöllun bandarískra fjölmiðla um Ísland, sem hefur líklega aldrei verið jafn mikil og nú.

Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í New York, segir þetta afar áhugavert, ekki síst í ljósi óhagstæðrar gengisþróunar undanfarin misseri. "Þrátt fyrir að Ísland sé nú mun dýrari valkostur fyrir Bandaríkjamenn en áður og fjölskylduferðir hingað nánast útilokaðar af þeim sökum, virðist það ekkert slá á eftirspurnina. Þetta er staðreynd sem ég tel afar mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustuaðila að hafa í huga. Það er nauðsynlegt fyrir þá að sækja áfram af fullum krafti inn á þennan markað hér vestan hafs", segir Einar.

Einstök umfjöllun
Einar segist aldrei hafa orðið vitni að jafn mikilli umfjöllun fjölmiðla um Ísland og nú upp á síðkastið og hámarki var náð sl. sunnudag þegar tvö af stærstu dagblöðum Kaliforníu gerðu Íslandi ítarleg skil sama daginn.

Þetta voru blöðin Los Angeles Times og San Francisco Chronicle. Hið fyrrnefnda var með heilsíðuumfjöllun í ferðablaði sínu og umfjöllun San Francisco Chronicle var enn meiri. Bæði var forsíða blaðsins helguð Íslandi með stórri mynd og tvær síður inn í blaðinu einnig. "Það að tvö af einum virtustu blöðum Bandaríkjanna og frá sama fylki skuli helga sig Íslandi sama daginn er alveg
einstakt," segir Einar. Þessu til viðbótar nefnir hann heilsíðugrein á besta stað í New York Times í síðustu viku og þannig mætti áfram telja.

Halda áfram af krafti
"Fjölmiðlaumfjöllun ásamt mikilli eftirspurn eftir ferðum til landsins sýnir hvað Ísland hefur náð sterkri stöðu. Við skulum átta okkur á að þetta gerist þrátt fyrir að gengi dollars gagnvart krónu hafi fallið um 42% á þremur árum. Þetta kemur mörgum á óvart og ég vil ítreka hversu mikilvægt er að íslensk ferðaþjónusta haldi áfram að sinna markaðinum hér. Þetta bendir sterklega til að í sókninni hafi tekist að koma réttum skilaboðum til réttra markhópa sem hopa ekki þrátt fyrir hærra verð. Einnig hefur verið dreift á markaðinum fyrsta flokks kynningarefni um Ísland, meðal annars á annað hundrað þúsund eintökum af DVD mynd um landið. Við megum því hvergi slaka á. Ég á von á að haustið verði gott og nú verður aftur boðið upp á flug í allan vetur á milli Íslands og New York, sem hefur verið okkar sterkasti vetrarmarkaður. Þetta er tækifæri sem ekki má missa aftur," segir Einar.

Tryggja þarf flugið til San Francisco
Á vesturströndinni hefur að sögn Einars átt sér stað öflugt markaðsstarf í tengslum við flugið til San Francisco þar sem Icelandair, Ferðamálaráð og Iceland Naturally hafa komið að málum. "Það er einnig mikilvægt að sinna þeim markaði vel til að tryggja framhald þess flugs. Hér er sem sagt fullt af góðum hlutum að gerast og þrátt fyrir að Ísland sé dýrt virðast Bandaríkjamenn spenntari fyrir landinu en nokkru sinni fyrr," segir Einar Gústavsson að lokum.

Mynd: Seljalandsfoss. Ferðamálaráð/EBG