Fara í efni

Stefnumótun í sjálfbærri ferðaþjónustu norðan heimskautsbaugar

sjalfbaerferdathjonusta
sjalfbaerferdathjonusta

Að hálfu Norrænu ráðherranefndarinnar er nú verið að vinna að stefnumótun í sjálfbærri ferðaþjónustu á svæðum norðan heimskautsbaugar. Í liðinni viku var boðað til málstofu í Kaupmannahöfn vegna þessa.

Fróðleg vinna
Svæðið sem um ræðir er sá hluti Norðurlandanna sem liggur norðan heimskautsbaugar og tekur Ísland þátt í verkefninu þótt raunar sé það aðeins hluti Grímseyjar sem strangt til tekið falli undir skilgreininguna. Valur Þór Hilmarsson umhverfisfulltrúi sótti málþingið fyrir hönd Ferðamálaráðs og segir hann að afar fróðlegt hafi verið að taka þátt í þeirri vinnu sem nú á sér stað um þetta efni. "Megintilgangur málþingsins var að velta upp spurningum um stöðu mála og leggja grunn að opinberri stefnu í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu," segir Valur.

Þó nokkrum aðilum frá Íslandi var boðið frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins og samtökum innan ferðaþjónustunnar. Aðrir þátttakendur voru frá norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands auk fulltrúa fyrir Grænland og Svalbarða. Til að halda utan um verkefnið var fengið ráðgjafafyrirtæki í Kaupmannahöfn, Rambøll, sem hefur mjög viðtækt starfsvið í ráðgjöf á ýmsum sviðum. Og hefur um 2.000 manns á launaskrá víða um heim.