Fara í efni

Stefnumótun fyrir ferðaþjónustuna – vinnustofur um allt land

Hafin er vinna við aðgerðabundna stefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi til ársins 2025. Verkefnið er sameiginlegt verkefni Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins, Sambands Sveitarfélaga, Samtaka ferðaþjónustunnar og Stjórnstöðvar ferðamála.

Skrá mig á vinnustofu

Jafnvægisás og framtíðarsýn

Á undanförnum misserum hefur verið unnið að tveimur mikilvægum verkefnum sem stefnumótunin byggir á. Annars vegar er það Jafnvægisás ferðamála þar sem álag á innviði og samfélag hefur verið metið. Hins vegar hefur Framtíðarsýn og leiðarljós fyrir ferðaþjónustu til 2030 verið samþykkt af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og þar kemur fram að ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærni.

Opnar vinnustofur

Boðað er til opinnar vinnustofu í tengslum við stefnumótunina. Vinnustofan er opin öllum, og er mikilvægt að fá að borðinu alla hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni grasrót, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Á vinnustofunni verða ræddar sviðsmyndir um þróun ferðaþjónustunnar til næstu ára og þær leiðir sem er mikilvægt að fara til að ná framtíðarsýn og leiðarljósi ferðaþjónustunnar um að vera leiðandi í sjálfbærni.

Vinnustofan er um þrjár klukkustundir. Unnið er í hópum að mismunandi meginmálefnum sem varða ávinning heimamanna, upplifun ferðamanna, verðmæta markaði, álagsstýringu og gæði áfangastaða, arðsemi og nýsköpum og loftslagsmál og orkuskipti. 

Mikilvægt veganesti 

Afurð vinnustofanna er mikilvægt veganesti inn í stefnumótunina. Það er von okkar að sem flestir sjái sér fært að mæta og taka virkan þátt í umræðunum.

Vinnustofurnar eru haldnar sem hér segir:

  • Ísafjörður, Edinborgarhúsið – Þriðjudagur 26. nóvember kl. 13-16
  • Borgarnes, B59 Hótel – Fimmtudagur 28. nóvember kl. 13-16
  • Höfn, Hótel Höfn – Föstudagur 29. nóvember kl. 13-16
  • Egilsstaðir, Hótel Hérað – Miðvikudagur 4. desember kl. 15-18
  • Akureyri, menningarhúsið Hof – Fimmtudagur 5. desember kl. 13-16
  • Selfoss, Tryggvaskáli – Föstudagur 6. desember kl. 13-16
  • Reykjavík, Grand Hótel Reykjavík – Þriðjudagur 10. desember kl. 13-16

Skrá mig á vinnustofu