Fara í efni

Áhugaverðar niðurstöður um starfsánægju í ferðaþjónustu

Niðurstöður fyrstu könnunar á starfsánægju og vinnuumhverfi í ferðaþjónustu voru kynntar í dag á fundi sem Ferðamálastofa og Íslenski Ferðaklasinn stóðu fyrir. Könnunin er samvinnuverkefni Ferðamálastofu og Vinnueftirlits ríkisins og var framkvæmd í samvinnu við MMR.

  • Helstu niðurstöður benda til að heilt yfir eru starfsmenn í ferðaþjónustu frekar ánægðir í starfi en 63% starfsmanna sögðust vera frekar eða mjög ánægt í starfi.
  • Enginn marktækur munur fannst á starfsánægju eftir starfsgreinum nema hjá stjórnendum og rekstraraðilum sem mældust marktækt ánægðari en þeir sem sjá um sölu-og markaðsmálin og þeir sem vinna við gistiferðaþjónustu.
  • Starfsánægjan mældist einnig marktækt meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, eins eru þeir sem eru í hálfustarfi ángæðari en þeir sem eru í fullu starfi.
  • Íslendingar voru yfirleitt ánægðari en erlent starfsfólk og var meiri ánægja með samskipti meðal íslenskra starfsmanna.
  • Minni ángæja var með laun og möguleika á framvindu í starfi en þætti eins og eðli starfsins, vinnuumhverfið og samskipti á vinnustað.
  • Vísbendingar um einelti fannst frekar meðal þeirra sem yngri eru sem er í samræmi við erlendar niðurstöður.

Um könnunina

Könnunin er liður í reglubundinni vöktun Ferðamálastofu á starfsánægju í ferðaþjónustu sem er einn af skilgreindum lykilmælikvörðum Vegvísis í ferðaþjónustu fyrir árangur og stöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Einnig gerir könnunin Vinnueftirlitinu kleift að fá innsýn í hvort starfsumhverfi ferðaþjónustunnar sé öruggt, heilsusamlegt og í samræmi við vinnuverndarlög.

Greindir voru ýmsir vinnuumhverfislegir þættir sem geta haft mikil áhrif á líðan starfsfólks s.s. álag, stuðningur yfirmanna og einelti. Jafnframt var ánægja starfsmanna mæld með viðurkenndri aðferð sem greinir á milli ánægju starfsfólks með laun, möguleika á framvindu í starfi, fríindi, vinnuumhverfið, samskipti við samstarfs menn , stjórnun yfirmanna og fleira.

Rannsóknasvið Ferðamálastofu kom að hönnun verkefnisins, en Vinnueftirliti ríkisins og Markaðs- og Miðlarannsókir framkvæmdu rannsóknina. Í dag voru fyrstu niðurstöður kynntar af Jóhanni Friðriki Friðrikssyni lýðheilsufræðingi og sérfræðingi á rannsóknasviði Vinnueftirlitsins. Rannsóknaskýrsla er í vinnslu.

Um rannsakendur

Rannsóknasvið ferðamálastofu kom að hönnun verkefnisins, en það var Jóhann Friðrik Friðriksson lýðheilsufræðingur og fagstjóri sálfélagslegra þátta hjá Vinnueftirlitinu sem framkvæmdi rannsóknina, með aðkomu Ólafs Þórs Gylfasonar og Birkis Gretarssonar hjá MMR sem sáu um gagnasöfnun og frumúrvinnslu.

Efni og upptökur

Þá má nálgast efni og upptökur frá fundinum í dag hér að neðan.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar í skýrslu síðar á árinu.

Næstu kynningar

Næsta hádegiskynning sem Ferðamálstofa mun standa fyrir verður næstkomandi föstudag, 7.maí. Þar verða kynntar nýjar niðurstöður rannsóknar á Airbnb-markaðinum á höfuðborgarsvæðinu.