Stafræn tækni getur aukið upplifun og skilning

„Framtíðin er stafræn. Fólk er alltaf með símana á lofti og sjálfsagt að nýta þá til að auka öryggi fólks og koma á framfæri upplýsingum,“ segir Einar Skúlason sem á heiðurinn af Wapp-Walking app. Það er umfjöllunarefnið í nýjasta þættinum af Ferðalausnir – stafræn tækifæri.

Ný nálgun

Wapp-Walking app er dæmi um hvernig nýta má stafræna tækni til að skapa nýjar upplifanir og auka öryggi ferðafólks. Um er að ræða smáforrit fyrir snjallsíma sem hefur að geyma safn fjölbreyttra GPS leiðarlýsinga um allt Ísland með upplýsingum um örnefni, sögur, náttúru og umhverfi. Leiðirnar sem boðið er uppá eru fjölbreyttar, sumar ókeypis en fyrir aðrar þarf að greiða. Wappið er einnig í samstarfi við Neyðarlínuna þar sem notandi getur sent tilkynningu um staðsetningu sína með textaskilaboðum úr símanum til Neyðarlínunnar þegar hann leggur af stað.

Búa til meiri tilfinningatengsl

„Stafræna tæknin er alveg mögnuð og við getum nýtt hana á svo marga vegu við að aðstoða ferðamenn, búa til meiri tilfinningatengsl við landið en um leið tryggja öryggi þeirra. Aðstoða þá til að fá áreiðanlegar upplýsingar, t.d. öryggisupplýsingar, færð, vá og veður og svo allar hinar upplýsingarnar um fólkið í landinu, söguna, menninguna og jarðsöguna,“ segir Einar.

Auðvelt að fræða

Einar bendir einnig á hversu stafræn tækni getur nýst vel við að fræða fólk, kenna því að umgangast náttúruna og umhverfið af virðingu, hvers vegna eru boð og bönn. „Með því að segja sögur með hjálp þessarar stafrænu tækni, birta myndir og annað, er hægt að gera upplifunina svo ótrúlega lifandi og skilningurinn eykst hjá fólki,“ segir Einar.

Horfa ná á myndbandið hér að neðan:

 


Athugasemdir