Fara í efni

Stærstu ferðasýningarnar mikilvægur vettvangur

ITB07 3
ITB07 3

Hin árlega ITB ferðasýning í Berlín verður samkvæmt venju haldin nú í mars. ITB, eða Internationale Tourismusbörse, er ein mikilvægasta ferðasýning á meginlandi Evrópu og ein sú stærsta í heimi.

Island hefur verið með sýningarbás á ITB síðastliðin 30 ár og verður svo einnig í ár. Um það bil 15 fyrirtæki verða frá Íslandi. Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, eru stærstu ferðasýningarnar ennþá mjög mikilvægur vettvangur fyrir ferðaþjónustuna til að koma þjónustu sinni á framfæri og til að halda á lofti almennri kynningu á Íslandi. Búist er við um 180.000 gestum og um 10.000 sýnendum. Sýningin stendur yfir frá 5.-9. mars. Fyrstu þrjá dagana er opið fyrir fagaðila en almenning síðustu tvo.

Nánari upplýsingar um ITB og eyðublað fyrir skráningu á sýninguna má nálgast undir liðnum Markaðsmál/Ferðasýningar. Skráningu lýkur 10. janúar nk. Myndin er tekin á ITB í fyrra.