Fara í efni

Staða íslenskrar ferðaþjónustu: Áskoranir og viðspyrnan - skýrsla & kynning

Mynd: Íslandsstofa
Mynd: Íslandsstofa

Ferðamálastofa og KPMG kynntu greiningu á fjárhagslegri getu ferðaþjónustunnar til að mæta líklegri fjölgun erlendra ferðamanna til landsins á næstu misserum; hvað helst hamlar greininni og hvernig má efla hana, nú þegar hyllir undir lok faraldursins. Í skýrslu um helstu niðurstöður greiningarinnar er varpað ljósi á hvort og hvernig félög innan greinarinnar munu geta ráðið fram úr þeim fjárhagsvanda sem heimsfaraldurinn hefur leitt af sér og hvaða úrræði gætu helst gagnast þegar hluthafar, lánveitendur og leigusalar setjast við samningaborðið til að vinna úr þessari stöðu.

Viðspyrnuþróttur ferðaþjónustunnar krefst fjárhagslegrar endurskipulagningar

  • Stærsti vandi ferðaþjónustunnar nú er mikil söfnun skammtímaskulda og ósjálfbær skuldsetning fjölmargra félaga.
  • Gangi spá um fjölda ferðamanna og þróun reksturs og efnahags ferðaþjónustufyrirtækja eftir mun fjármunamyndun greinarinnar illa ráða við skuldasöfnun sem átt hefur sér stað á tímabili heimsfaraldurs. Staðan er þó misjöfn eftir greinum ferðaþjónustunnar og fyrirtækjum. Bílaleigur koma t.a.m. einna best út úr faraldrinum á meðan veitingastaðir, sem helst reiða sig á erlenda ferðamenn, og hópferðafyrirtæki koma einna verst út úr honum.
  • Það má gera ráð fyrir að vinna við fjárhagslega endurskipulagningu hefjist í haust þegar fyrirtækin klára hávertíð ferðaþjónustunnar, enda sé þá heimsfaraldurinn að baki.
  • Ef ekki verður gripið til sértækra úrræða mun markaðurinn leysa úr vandanum með þeim aðferðum sem hann hefur, þ.e. skuldbreytingum, frjálsum nauðasamningum og gjaldþrotum. Val á aðferð er að miklu leyti háð lífvænleika hvers félags og því fjármagni sem eigendur geta lagt í reksturinn. Við núverandi aðstæður munu markaðsaðferðir að öllum líkindum leiða af sér stærri og hraðari breytingar í greininni heldur en væri við eðlilega þróun hennar yfir tíma.
  • Ef grípa ætti til sértækra aðgerða til að styðja við skuldauppgjörið ætti tilgangurinn að vera sá að vernda áframhaldandi rekstur lífvænlegra fyrirtækja og tryggja að fjárfesting ríkisins, sem falist hefur í þeim stuðningsaðgerðum sem ráðist hefur verið í, skili sér til baka með öflugri viðspyrnu.
  • Helstu hagaðilar þurfa að leggja sitt að mörkum, þ.e. eigendur, lánardrottnar, leigusalar og hugsanlega stjórnvöld. Ríkið hefur þegar lagt mikið til greinarinnar með ýmsum stuðningsúrræðum. Bankarnir eru stærstu lánveitendur greinarinnar og líklegir til að leiða þessa vinnu. Staða þeirra er sterk í dag og þeir ættu að vera vandanum vaxnir.
  • Lenging á ýmsum lánaúrræðum stjórnvalda kann að vera nauðsynleg, s.s. frekari frestun skattgreiðslna, endurgreiðsla stuðningslána og lána frá Ferðaábyrgðasjóði.

 

Skýrsluna má nálgast með því að smella á hnappinn að neðan:

Fjárhagsgreining: Viðspyrnan - áskoranir í íslenskri ferðaþjónustu í ársbyrjun 2022 

 

Nálgast má kynningu frá fundinum í spilaranum að neðan:  

Nánari upplýsingar veita:


Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri
S. 660 0063 / skarphedinn@ferdamalastofa.is

Benedikt Magnússon, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG
S. 861 5252 / bmagnusson@kpmg.is