Sprotafyrirtæki býður leiðsögn í snjallsíma

Sprotafyrirtæki býður leiðsögn í snjallsíma
leiðsöguforrit

Nýtt íslenskt forrit fyrir ferðamenn Locatify Iceland er komið í sölu í netverslun Apple. Það er gert fyrir iPhone og iPod Touch tæki og býður upp á sjálfvirka leiðsögn í snjallsíma.

Forritið er hannað af Leifi Birni Björnssyni en Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir hefur haft yfirumsjón með efnisgerð. Um er að ræða nýjung fyrir ferðamenn sem vilja ferðast um á eigin vegum. Þeir fá þá leiðsögn sögumanns sem fer með þá í tilbúna leiðangra. Leiðsögnin er sótt yfir netið og höluð beint í símann. Síðan er hægt að njóta ferðarinnar án nettengingar með sögumanninn (SmartGuide) í símanum.

Ferðastu með eigin leiðsögumanni
Leiðangrar eru í boði þar sem ferðmenn geta á eigin vegum kannað landið og hlustað á sögur úr umhverfinu undir dyggri leiðsögn leiðsögumanna og leikara. Staðsetning (GPS) kemur af stað frásögnum á viðeigandi stöðum. Sérhönnuð sögukort fylgja hverri ferð ásamt ljósmyndum sem birtast á skjánum. Einnig er aðgangur að Google Maps kortum með öllum leiðöngrunum. Í þessari fyrstu útgáfu er boðið upp á sex ferðir á Suðvesturhorni Íslands á allt að sex tungumálum en leiðangrar hafa verið unnir á átta tungumálum.

Margar mismunandi leiðsagnir
Aðalferðin er Gullni hringurinn, heilsdagsferð þar sem snjallsögumaðurinn segir frá og leiðbeinir bæði í bílferðinni og í gönguferðum um Þingvelli, Geysi og víðar. Þar er sagt frá á 90 stöðum og jafnmargar myndir birtast um leið. Styttri og lengri ferðir eru í boði um Reykjavík, Hafnarfjörð og Borgarfjörð, þar sem áhersla er lögð á sérkenni hvers staðar fyrir sig. Víkingaarfleiðin er kynnt í samstarfi við Landnámssetið í Borgarnesi, í Hafnarfirði eru álfaslóðir kannaðar og í Reykjavík eru miðbæjarferðir og listaferð þar sem söfn og fallegir staðir innan borgarmarkanna eru skoðaðir. Einnig er boðið upp á ferð sem unnin er í samstarfi við Grapevine en hún er frí og greinir frá því helsta sem er að gerast í miðbænum.

Sérhannað sögukort
Leiðsöguforritið og svokölluð Grapevine ferð fást endurgjaldslaust en aðrar ferðir kosta á bilinu 500 til 3000 krónur. Forritð býður notendum upp á sérhannað sögukort þar sem leið og sögustaðir eru merktir inn á kortið þannig að ferðalangar geta séð hvar þeir eru staðsettir. Google Maps er jafnframt til staðar þannig að auðvelt er að fylgja leiðinni.

Einnig er hægt að njóta leiðangranna án þess að færa sig um set með því að skoða myndirnar, hlusta á snjallsögumanninn og kanna kortin. Sú aðferð býður upp á góða landkynningu og kveikir draum um að sækja landið heim.

Sprotafyrirtækið Locatify
Locatify ehf er íslenskt sprotafyrirtæki stofnað haustið 2009 með það að markmiði að bjóða uppá leiðsagnir og sögur í síma. Sögufólk í ferðaþjónustu getur á auðveldan og hagkvæman hátt hannað ferðir um sín svæði. Þannig er hægt að bjóða uppá ferðir á fámenna staði og laða að fleiri ferðamenn, segir í frétt frá Locatify.

Nánari upplýsingar fást á vef Locatify www.locatify.com


Athugasemdir