Fara í efni

Spákerfi fyrir ferðaþjónustuna - Skýrsla um mismunandi aðferðir og fyrstu spár

Frá Rauðasandi. -Mynd: Markaðsstofa Vestfjarða
Frá Rauðasandi. -Mynd: Markaðsstofa Vestfjarða

Ráðgjafarfyrirtækið Intellecon er að vinna fyrir Ferðamálastofu að því að þróa spálíkön fyrir ferðaþjónustuna hér á landi, bæði til skemmri og lengri tíma. Í liðinni viku var kynntur áfangi í þeirri vinnu í fyrirlestri sem streymt var á netinu og jafnframt hefur verið gefin út áfangaskýrsla um verkefnið.

Bestu líkön til spágerðar ólík eftir lengd spátímabils

Vinna Intellecon miðar að því að búa til heildstætt spákerfi með viðeigandi tíðni fyrir stærðir er lýsa umfangi ferðaþjónustunnar. Tilgangur verkefnisins er m.a. að styrkja forsendur áætlanagerðar og stefnumótunar fyrirtækja í greininni, hjá stjórnvöldum og öðrum haghöfum greinarinnar.

Intellecon hefur nú skilað Ferðamálastofu áfangaskýrslu í verkefninu. Í henni er, meðal annars:

  • Rökstutt að þörf á er mismunandi spálíkönum eftir tímalengd spáa og tíðni þeirra gagna sem þær byggja á.
  • Farið yfir mismunandi líkön sem þekkt eru í spágerð af þessu tagi og þau prófuð á raungögnum um íslenska ferðaþjónustu.
  • Valin þau líkön sem rannsakendur færa rök fyrir að henti verkefninu best, miðað við mismunandi tímalengd spáa og tíðni gagna sem þær byggja á.
  • Settar fram fyrstu útgáfur af spám um fjölda erlendra ferðamanna til Íslands:
    • Árlegar spár fyrir árin 2022-2025
    • Ársfjórðungslegar spár fyrir 2022-2023
    • Mánaðarlegar spár fyrir árið 2022

Skýrsla Intellecon

Upptaka á fyrirlestri um lærdóma og áskoranir í spágerð og fyrstu spár

Dr. Gunnar Haraldsson hjá Intellecon hélt í síðustu viku fyrirlestur á vegum Ferðamálastofu og Ferðaklasans um lærdóma og áskoranir við spágerð fyrir ferðaþjónustuna og kynnti fyrstu spár sem út úr þessari vinnu eru komnar. Nálgast má upptöku af fyrirlestri Gunnars hér að neðan.