Fara í efni

Snæfellsnes - Green Globe verkefnið staðfest.

Hellnum - Þann 30. júní sl. undirritaði Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, í umboði bæjarfélaganna fimm á Snæfellsnesi, Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar, Stykkishólmsbæjar, Eyja- og Miklaholtshrepps og Helgafellssveitar, samning við Green Globe 21 um vottunarverkefni á Snæfellsnesi.

Með undirritun þessa samnings er stigið enn eitt skref í átt að því að Snæfellsnesi fái fullnaðarvottun sem umhverfisvænum áfangastað sem starfar með sjálfbæra þróun í ferðaþjónustu að leiðarljósi. Reiknað er með að fyrsti vinnufundur innlendra og erlendra aðila, sem að verkefninu koma, verði haldinn í ágúst, en sumarfrí hamla því að hægt sé að halda hann fyrr.

Reiknað er með því að undirbúnings- og úttektarferlið taki um 6-8 mánuði og því má gera ráð fyrir því að Snæfellsnes verði vottað sem umhverfisvænn áfangastaður á fyrri hluta næsta árs.