Fara í efni

Slasaðir erlendir ferðamenn í umferðaslysum - Nýtt talnaefni í Mælaborði Ferðaþjónustunnar

Slysakort sýnir öll umferðaslys erlendra ferðamanna á Íslandi, undanfarin ár - Mynd úr skýrslu
Slysakort sýnir öll umferðaslys erlendra ferðamanna á Íslandi, undanfarin ár - Mynd úr skýrslu

Í Mælaborði Ferðaþjónustunnar má nú nálgast skýrslu sem sýnir umferðaslys erlendra ferðamanna á Íslandi undanfarin ár. Í skýrslunni er meðal annars slysakort sem sýnir hvar slys á landinu urðu ásamt slysatölfræði undanfarinna ára flokkuð eftir upprunalöndum og alvarleika slysa. 

Á leið í rétta átt - slösuðum fækkar

Fjöldi slasaðra ferðamanna

Líkt og sjá má í skýrslunni og á myndinni til hægri fækkar heilt yfir frá 2002 til 2021 þeim ferðamönnum sem slasast á hverja 10.000 ferðamenn sem koma til landsins. Banaslysum fækkar milli ára en fjöldi þeirra sem slasast alvarlega helst í stað milli ára. 

Útafakstur og bílveltur eru helsta orsök þess að ferðamenn slasist í umferðaslysum á íslandi. Árekstrar af völdum framaná-, aftaná-, og hliðarákeyrslum eru einnig stór orsakavaldur slysa. Nánari útlistun á tegundum og orsakavöldum slysa má nálgast í skýrslunni.

Slasaðir eftir heimsálfurm

Asíubúar líklegri að slasast

Sé horft á slysatíðni og fjölda slasaðra á hverja 10.000 ferðamenn á tímabilinu 2005 til 2021 er hún hæst meðal Asíubúa, næst hæst að jafnaði hjá Evrópubúum og minnst hjá íbúum Norður-Ameríku.* 

Sé horft til einstakra þjóða er fjöldi slasaðra almennt mestur meðal Kínverja, Spánverja og Ítala. Minnstur er fjöldi slasaðra meðal Breta, Dana, Finna og Svía. 

Nálgast má slysatölfræði á hvern ferðamann fyrir öll þau þjóðerni sem talin eru í brottfarartalningu Ferðamálastofu í skýrslunni.

 

Skýrsluna má nálgast með því að smella á hnappinn að neðan

 Slasaðir erlendir ferðamenn í umferðaslysum

Skýrslan byggir á tölum Samgöngustofu og brottfarartalningu Ferðamálastofu. Við skráningu slysa er ríkisfang skráð, ef slasaður einstaklingur er ekki með kennitölu, telst hann sem erlendur ferðamaður. Fjöldi ferðamanna miðast við brottfarartalningu Ferðamálastofu frá Keflavíkurflugvelli og ber að skoða tölurnar með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér.

*Athuga skal að Asíubúar eru töluvert færri en ferðamenn frá Evrópu og Norður-Ameríku. Frávikin eru meiri, því lægri sem heildarfjöldi ferðamanna er.