Fara í efni

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í Kaupmannahöfn opnuð á morgun

Á morgun verður skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í Kaupmannahöfn opnuð formlega. Hún er í Norðurbryggju, sameiginlegu menningarsetri Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga.

Skrifstofan er þriðja landkynningarskrifstofa Ferðamálaráðs á erlendri grund og mun hún þjóna Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Forstöðumaður og eini starfsmaður er Lisbeth Jensen. Viðstaddir opnunina verða m.a. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson og fulltrúar í Ferðamálaráði.

Ferðamálaráð Færeyja og Grænlands eru einnig með skrifstofur í húsinu. Þá hafa löndin þrjú stofnað sameiginlegt fyrirtæki til að sinna upplýsingagjöf, dreifingu á bæklingum og fleiru sem hagkvæmt er talið. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn hefur þegar flutt í Norðurbryggju, ásamt sendiskrifstofum Færeyinga og Grænlendinga. Þar verða einnig með aðstöðu ýmsar stofnanir, fyrirtæki og menningarstarfsemi sem tengist löndunum þremur.

Húsið sjálft á sér merka sögu. Það var byggt sem pakkhús á árunum 1766-67 á uppfyllingu í Kristjánshöfn, gegnt Nýhöfn. Þar var miðstöð verslunar við eyjarnar í Norður Atlantshafi og var húsið upphaflega nefnt "Íslenska pakkhúsið".